Í gærkvöld var tilkynnt um mann sem ógnaði vegfaranda með hnífi í Kópavogi eða Breiðholti (lögreglustöð 3). Frá þessu greinir í dagbók lögreglu. Var maðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt er að taka skýrslu af honum. Hnífurinn var haldlagður.
Tilkynnt var um að manneskja hefði fallið af hestbaki. Var viðkomandi flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Einnig var tilkynnt um mann sem féll af reiðhjóli. Sá afþakkaði hins vegar aðstoð og kvaðst óslasaður. Verr fór með mann sem féll af rafskútu en sá fékk áverka í andlit. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.
Óskað var aðstoðar lögreglu vegna ofurölvi manns á skemmistað í miðborginni. Við afskipti lögreglu og sjúkraflutningamanna varð maðurinn æstur og ósamvinnuþýður og beit hann jafnframt lögreglumann. Var maðurinn vistaður í fangageymslu þar til hægt er að ræða við hann.
Tilkynnt var um árekstur í hverfi 110 og stakk sá olli tjóninu af. Vitni að atvikinu gat bent á tjónvald sem grunaður er um að hafa ekið bílnum undir áhrifum vímuefna.
Árekstur tveggja bíla varð í Mosfellsbæ. Báðir bílarnir voru óökufærir eftir óhappið og voru dregnir af vettvangi með kranabíl. Engin slys urðu á fólki.
Tilkynnt var um hugsanlega fíkniefnasölu við fjölbýlishús í Vesturbænum. Einstaklingurinn var farinn er lögreglu bar að.