Rússneski herinn lét sprengjum og sjálfsmorðsdrónum rigna yfir Kænugarð og aðrar úkraínskar borgir í nótt. Talið er að um fjörtíu drónar, allar merktir með áletruninni Fyrir Moskvu hafi verið notaðir í nótt en sprengingar heyrðust meðal annars í borgunum Odessa, Nikopol og Zaporizhzhia auk höfuðborgarinnar.
Talið er að sprengjuregnið sé svar Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, við meintu tilræði úkraínska hersins í gær en þá féllu tveir drónar, sem sagðir eru úkraínskir, á Kreml í Moskvu. Rússar hafa haldið því fram að úkraínsk yfirvöld beri ábyrgð á árásinni en því hafa Úkraínumenn neitað staðfestlega. Volodimir Zelensky, Úkraínuforseti, vísaði ásökununum til að mynda alfarið á bug og sagði Úkraínumenn eiga fullt í fangi með að berjast í eigin landi.
Úkraínumenn náðu að skjóta flestar sprengjurnar og drónanna niður en einhverjar skemmdir urðu þó á byggingum í helstu borgum. Engar fregnir eru af mannfalli.
Í kjölfar drónaárásarinnar á Kremli kallaði Dmitry Medvedev, fyrrum forsætisráðherra Rússlands, opinberlega eftir því Zelensky yrði drepinn í ljósi þess að Úkraínumenn hafi freistað þess að vega Pútín.
Breskir sérfræðingar telja þó að árásin á Kreml hafi verið sviðsett af Rússum og aðgerðin hafi verið liður í því að dreifa athyglinni frá yfirvofandi gagnsókn Úkraínumanna og ekki síður auka stuðning heima fyrir gagnvart stríðinu í nágrannalandinu.