Kröftug jarðskjálftahrna hófst í Mýrdalsjökli í morgun, en samkvæmt frétt mbl.is er um að ræða öflugustu skjálftahrinu sem þar hefur orðið í sjö ár. Samkvæmt náttúruvásérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands sé þetta tiltölulega óvenjulegt fyrir Mýrdalsjökul.
Stærsti skjálftinn varð klukkan 09:52 og var 4,5 að stærð samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum. Veðurstofan fylgist vel með en skjálftar hafa fundist í Þórsmörk.
Enginn gosórói hefur þó mælst en fluglitakóði fyrir Kötlu hefur verið settur á gult, en slíkt er gert þegar eldstöð sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.
Rétt er að taka fram ekki er um gosóróa að ræða fyrr en kvika hefur brotist upp úr berginu undir jöklinum, en svo gæti vel verið að slíkt sé að eiga sér stað. Spurningin sé þó hvort kvikan fari alla leið eða stoppi. Svo að enginn gosórói þýðir í raun ekki að ekki sé um forboða að ræða, en Katla er ekki talin gjósa forboðalaust, eða svo herma málsmetandi heimildir DV.
Vísir ræddi við Kristínu Jónsdóttur, deildarstjóra hjá Veðurstofu Íslands sem segir að gera þurfi ráð fyrir hinu versta. Alltaf þurfi að setja sig í stellingar þegar Katla er með svona virkni. Nokkrar sviðsmyndir séu í stöðunni, annars vegar að hlaup eigi sér stað og svo hitt að um sé að ræða undanfara eldgoss.