Anna Hildur Guðmundsdóttir var endurkjörinn formaður SÁÁ á fundi aðalstjórnar samtakanna þann 2. maí. Þráinn Farestveit var endurkjörinn varaformaður og Gróa Ásgeirsdóttir ritari.
Á aðalfundi kom fram að rekstrartekjur SÁÁ námu rúmlega tveimur milljörðum króna á síðasta ári og var rekstrarafkoman neikvæð um 184 milljónir króna. Sjálfsaflatekjur námu 570 milljónum króna, seld þjónusta 118 milljónum og framlag á fjárlögum til sjúkrareksturs var 1,33 milljarðar. 3.500 einstaklingar nutu þjónustu SÁÁ á síðasta ári og voru þjónustusnertingar 28 þúsund, en með þjónustusnertingu er vísað til hvers skráðs tilfellis þar sem skjólstæðing er sinnt með einum hætti eða öðrum.
Á fundinum voru einnig samþykktar viðamiklar breytingar á samþykktum SÁÁ, en þær hafa verið birtar á vefsíðu samtakanna. Þá voru þau Íris Kristjánsdóttir og Sigurður Friðriksson útnefnd heiðursfélagar SÁÁ.
Anna Hildur fjallaði á fundinum um þau áform SÁÁ að beina athyglinni í vaxandi mæli að því jákvæða sem fylgir því að ná tökum á fíknisjúkdómnum. Ástæða væri til að tala um gleðina og það nýja og betra líf sem kemur í kjölfarið – allt annað líf.