Brasilíski bæjarstjórinn og milljónamæringurinn Hissam Hussein Dehaini hefur sagt af sér sem bæjarstjóri smábæjarins Aracáuria, í Parana-fylki, í kjölfar háværar gagnrýni á þann ráðahag að giftast unnustu sinni. Ástæðan var nefnilega sú að Dehaini, sem er 65 ára gamall, gekk að eiga stúlku sem hafði fjórum dögum fyrr fagnað sextán ára afmæli sínu. Daily Mail greinir frá.
Dehaini, sem er farsæll viðskiptamógúll, var á sínu öðru kjörtímabili sem bæjarstjóri en hann varð að hrökklast úr embætti eftir að bæjarbúar fréttu af brúðkaupinu auk þess sem hann sagði sig úr stjórnmálaflokkinum Cidadania, sem er klofningur úr brasilíska kommúnistaflokknum.
Í Brasilíu er kynferðislegur lágmarksaldur fjórtán ár en hávær orðrómur var uppi um að samband Dehaini og stúlkunnar hafi staðið yfir frá því að hún var þrettán ára gömul. Þá hafði móðir stúlkunnar fengið framgang í stjórnkerfi bæjarins eftir brúðkaupið og það var of mikið fyrir kjósendur í bænum.
.