Alls voru bókuð 38 mál í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá kl.17:00 í gær til kl.05:00 í morgun og voru þau af ýmsum toga. Umfangsmesta málið var augljóslega eldsvoðinn í Drafnarslipp í Hafnarfirði sem tilkynnt var um kl.20:32 í gær og stóð yfir til kl.03:00 í nótt þegar síðustu glæðurnar voru slökktar. Húsið er gjörónýtt en tæknirannsókn lögreglu mun fara fram síðar í dag og verður þess þá freistað að komast að eldsupptökum.
Um kl.17:30 í gær var síðan óskað aðstoðar lögreglu vegna stórfelldrar líkamsárásar í hverfi 111 en þar hafði aðili verið sleginn ítrekað í höfuðið með hamri. Ekki náðist í skottið á árásarmönnum né er vitað hverjir þeir voru en árásarþolinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild LSH til aðhlynningar. Hann virtist þó ekki verr farinn en það að síðar þetta kvöld var tilkynnt um manninn á pizzastað í borginni þar sem hann var að panta sér pizzu í spítalafötunum.
Þá var einstaklingur í miðbænum handtekinn grunaður um vörslu ætlaðra fíkniefna. Sá brást illa við afskiptum lögreglu og hótaði lögreglumönnum lífláti og barsmíðum. Þannig verður hann einnig kærður fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.
Þá hafði leigubílstjóri í Kópavogi samband kl.22:01 vegna manns sem virtist hafa orðið fyrir slysi. Sá reyndist vera með opið beinbrot á fæti og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild LSH til aðhlynningar. Ekki liggur fyrir hvernig slysið átti sér stað.