fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Örvæntingarfull móðir manns sem framdi vopnað rán í Hlíðunum – „Vonandi hefur ekkert hræðilegt gerst”

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 29. apríl 2023 10:56

Mynd tengist frétt ekki beint og sýnir ekki umræddan mann. Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vikunni birtu fjölmiðlar stutta frétt um mann sem hafði framið vopnað rán í verslun í Hlíðunum. Maðurinn sveiflaði hnífi í versluninni og hafði á brott með sér tvö karton af sígarettum. Hann fór með sígaretturnar í Konukot og gaf konum sem þar búa. Fannst mörgun fréttin allt að því kómísk en á bak við atvikið er löng sorgarsaga.

Umræddur maður á að baki afar langa sögu fíknar og afbrota og kerfinu hefur reynst um megn að koma honum til hjálpar. Hann hefur hvað eftir annað sofið í tjaldi úti í köldu veðri, hvergi átt höfði sínu að hallað og grátbeðið lögreglu um að handtaka sig svo hann hafi þak yfir höfuðið næstu nótt. DV ræddi við móður mannsins undir nafnleynd en hún óttast mjög að sonur hennar fremji voðaverk á næstunni ef honum verður ekki komið undir manna hendur. Móðirin telur að rétti staðurinn fyrir son hennar sé fíknigeðdeild Landspítalans. Hann var nýlega rekinn út áfengismeðferð á Vogi vegna ógnandi hegðunar og núna mælir hann göturnar og brýtur af sér. Þess má geta að maðurinn var undir áhrifum lyfja þegar honum var vísað frá Vogi. Þar sem hann er ógnandi og oft ofstopafullur fær hann ekki að sofa í gistiskýlum borgarinnar og þarf að láta sér duga tjald frá frú Ragnheiði.

Maðurinn er 36 ára gamall og hefur að sögn móður hans ekki stundað vinnu í átta ár. Hann hefur farið í gegnum margar meðferðir og ávallt gengið vel í þeim. En það gengur alltaf jafnilla að aðlagast samfélaginu eftir meðferðirnar. Hann er þjáður af áráttu- og þráhyggjusjúkdóminum OCD auk þess að vera virkur fíkill. Undanfarið hefur hann ekki  tekið lyfin sem hann þarf gegn OCD og við það versnar áráttu- og þráhyggjuhegðunin um allan helming.

DV hefur áður rætt við móður mannsins, það var í fyrrasumar, en þá var hann einnig í fréttum vegna smáglæpa.

Sjá einnig: Móðir fársjúks afbrotamanns í örvæntingu – „Við komum alls staðar að lokuðum dyrum“

Þar kom fram að maðurinn grátbæði um að vera lagður inn á viðeigandi stofnun en kæmi alls staðar að lokuðum dyrum. Hann bryti af sér til þess eins að vera handtekinn og fá húsaskjól.

Misþyrmdi eiginmanni móður sinnar

Móðirin lýsir því að maðurinn hafi farið í gegnum meðferð á Vogi í september síðastliðið haust og hafi síðan fengið inni í framhaldsmeðferð í Vík. „Það gekk bara mjög vel og síðan komst hann inn á áfangaheimilið Vin sem SÁÁ rekur. Hann kom þangað í desember en féll síðan á annan í jólum. Hann hafði samband við mig og spurði hvort hann mætti dveljast á heimili mínu og mannsins míns þar til hann kæmist aftur inn á Vog. En það sem gerist eftir það er að hann verður stjórnlaus af drykkju og ræðst á manninn minn og lemur hann. Þetta voru rosaleg slagsmál og maðurinn minn, sem er sjötugur, hafði ekki roð við 36 ára manni, það blæddi úr enni hans eftir hann og hann fékk stærðarinnar glóðarauga.“

Eiginmaður móðurinnar vildi ekki kæra son hennar enda væri honum augljóslega ekki sjálfrátt. Lögregla sagði manninum að það væri ekki á hans valdi hvort hann yrði kærður fyrir árásina eða ekki en hafði þó samband nokkru síðar aftur og spurði hvort hann vildi leggja inn kæru. Svarið var það sama og síðast, maðurinn vildi það ekki.

Sáu aumur á honum í frosthörkunum

Í hönd fóru ískaldir dagar eins og fólk man frá þessum tíma í vetur. „Hann var útilokaður frá gistiskýlunum vegna hegðunar hans, tvö kvöld í röð stoppaði hann lögreglubíl og bað um að vera lokaður í fangaklefa, honum var sagt að það væri ekki hægt vegna þess að hann hefði ekki brotið af sér. Hann hringdi í mig eftir áramótin og ég hágrét yfir honum,“ segir konan, en þrátt fyrir það sem hafði gengið á síðast samþykkti maðurinn hennar að taka hann inn aftur með því skilyrði að honum yrði haldið inni í herbergi. Það gekk eftir um tíma. „Hann var 17 daga hérna í stofufangelsi og ég skammtaði honum bjór á klukkutímafresti til að komast hjá fráhvörfum. Hann drekkur allt sem er í boði, til dæmis kardimommudropa.“

Undir lok þessa tímabils fékk maðurinn gífurlegar ranghugmyndir en hann taldi að bróðir hans væri byrjaður sem stúlku sem hann hafði sjálfur kynnst í meðferð og vingast við og er orðinn hrifinn af. Þetta er hins vegar alrangt og bróðirinn er ekki með þessari stúlku.

Maðurinn komst hins vegar inn á Vog áður en allt fór í bál og brand en nýlega var hann rekinn þar úr meðferðinni vegna ógnandi hegðunar og er núna á götunni.

Telur hann eiga heima á fíknigeðdeild Landspítalans

Á fíknigeðdeild er lögð áhersla á þjónustu fyrir einstaklinga með alvarlegan fíkni- og geðvanda. Þar telur konan að syni hennar væri best borgið. Hún spyr hvort ekki sé talsamband milli SÁÁ og Landspítalans í þessum efnum því best hefði verið að hann hefði verið lagður inn á fíknigeðdeildina þegar hann var ekki húsum hæfur á  Vogi en þessi í stað var hann bara rekinn á dyr.

„Ég veit að félagsþjónustan hjá Reykjavíkurborg tekur málefni hans alvarlega og þau funduðu um hann í gær en það kom ekkert út úr þeim fundi. Hann má ekki vera í gistiskýlunum af því hann er ógnandi og hættulegur.“

Konan óttast að sonur hennar fremji voðaverk á næstunni ef hann verður ekki lagður inn. „Hann er búinn að vera að brjóta af sér alla þessa viku og hefur flakkað milli fangaklefa og bráðamóttöku. Eftir ránið í Hlíðunum á miðvikudag hirtu þeir hann í einhveri búð þar sem hann var að stela hnífum og hann var búinn að stinga fullt af hnífum inn á sig.“

„Hann er hættulegur úti í samfélaginu. Ég hef ekki hitt hann síðan á miðvikudaginn og hef látið pabba hans um þetta allra síðustu dagana. Hann tjáði mér að hann væri allur skorinn á höndunum. Hann hafði brotið gler í bílakjallara á Vesturgötu til að komast inn til að sofa. Þess vegna var hann allur skorinn á höndunum og núna er hann kominn með sýkingu í sárin á annarri hendinni.“

Maðurinn á hvergi höfði að halla vegna þess að hann kemur sér út úr húsi með ógnandi framkomu. En ber ekki líka að hlúa að þeim sem hafa ekki stjórn á sér? Konan ítrekar að hún telur að rétti staðurinn fyrir son hennar sé fíknigeðdeild Landspítalans.

Hún biður þess að syni hennar verði komið undir manna hendur áður en hann brýtur mjög alvarlega af sér eða fer sér að voða. „Við erum öll í öngum okkar út af honum, ég, maðurinn minn, faðir hans og systkini hans. Við erum ráðalaus og þráum það eitt að hann verði tekinn áður en eitthvað skelfilegt gerist. Vonandi hefur ekkert hræðilegt gerst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“