Sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason er einn af þeim sem gagnrýnt hefur ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að leggja niður Héraðsskjalasafn bæjarins, en ákvörðunin var tekin á fundi bæjarstjórnar á þriðjudagskvöld.
Sjá einnig: Fýkur í Egil yfir kúltúrsleysinu – „Er hægt að koma viti fyrir þetta fólk?“
Í færslu á Facebook ber Egill saman höfuðstað Norðurlands, Akureyri, en íbúatala þar nálgast óðfluga 20 þúsund, við Kópavog sem telur yfir 40 þúsund íbúa.
„Það er fagnaðarefni að íbúar Akureyrar skuli loks vera orðnir 20 þúsund. Lífið á Íslandi verður skemmtilegra með stærri og fjölbreyttari þéttbýlissvæðum – jú, ég vil endilega að Akureyri sé borg. Á Akureyri er menning sem er sómi að – Amtsbókasafnið, Héraðsskjalasafnið, menningarhúsið Hof, Sinfónía Norðurlands, Leikfélag Akureyrar, Listasafnið glæsilega, skáldahús Nonna, Matthíasar og Davíðs. Yfir þessu er mikill myndarbragur,“ segir Egill.
„En næststærsta „borg“ á Íslandi er þó ekki Akureyri heldur Kópavogur. Þar eru tvöfalt fleiri íbúar en á Akureyri, eða meira en 40 þúsund. Hinn menningarlegi metnaður er þó öllu minni eins og hefur mátt heyra í fréttum undanfarna daga. Þar virðist eiga að skera niður í allri menningarstarfsemi – mörgu af því var komið á laggirnar á tíma hins dugmikla bæjarstjóra Gunnars Birgissonar – og verður að segja eins og er að samanburðurinn við höfuðborg Norðurlands er heldur óhagstæður.“
Allir fulltrúar meirihlutans samþykktu tillögu um lokun héraðsskjalasafnins frá Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra, en fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti tillögunni og gagnrýndu að hún hefði ekki verið nægjanlega kynnt fyrir fundinn.
Tillagan byggðist á úttekt ráðgjafarfyrirtækisins KPMG en svipuð frá fyrirtækinu var til grundvallar þegar borgarstjórn ákvað að leggja niður Borgarskjalasafn á dögunum og leita til Þjóðskjalasafnsins varðandi varðveitingu gagna.
Samkvæmt Hagstofu voru íbúar á Akureyri 19.623 þann 1. janúar síðastliðinn, íbúar Kópavogs voru 39.733 á sama tíma.