Lögreglan boðaði til fréttamannafundar í gær þar sem hún tilkynnti að auk þess að rannsaka fyrrgreint mál þá hafi hún kært manninn fyrir að hafa numið Emilie Meng á brott í júní 2016 og að hafa nauðgað henni og myrt.
Maðurinn hefur fengið viðurnefnið „Korsørmaðurinn“ hjá sumum dönskum fjölmiðlum og má rekja það til þess að Emilie Meng hvarf í Korsør.
Mál Emilie Meng hefur hvílt þungt á dönsku þjóðinni í tæp sjö ár og var mörgum létt þegar lögreglan tilkynnti að fyrrgreindur maður hafi stöðu grunaðs í málinu.
B.T. ræddi við Kurt Kragh í gær um málið og sagði hann að það verði næstum ótrúlegt ef í ljós komi að hinn handtekni hafi ekki verið að verki í máli Emilie Meng. Hann benti sérstaklega á staðsetningu afbrotanna og aðferðirnar sem var beitt í báðum málum. Margt í tengslum við dvalarstaði mannsins í tengslum við hvarf Emilie og bíllinn, sem lögreglan lýsti eftir í því máli, bendi til að þetta geti verið gerandinn.
Auk fyrrgreindra mála er maðurinn kærður fyrir að hafa ráðist á unglingsstúlku í Sorø í nóvember á síðasta ári. Hann otaði hnífi að henni og lagði hana á jörðina og reyndi að nauðga henni. Hún veitti svo mikla mótspyrnu að maðurinn gafst upp á endanum og hvarf á brott.
Hinn handtekni neitar sök í máli Emilie Meng og málinu frá í nóvember en hefur viðurkennt hluta af sakarefnunum í máli Filippa.
Kragh sagði að það sem sé nú afgerandi fyrir rannsókn lögreglunnar sé að tengja manninum við morðið á Emilie. „Ef þú finnur fingraför hennar, dna eða muni í hennar eigu á einhverjum þeirra staða sem hann hélt til á eða í bílum hans, þá steinliggur hann. Þetta er afgerandi,“ sagði hann.
Í kjölfarið fylgi síðan klassísk lögregluvinna, yfirheyrslur yfir ættingjum, vinum og vinnufélögum mannsins og kortlagning ferða hans, hvenær hann var í fríi. Einnig verði símanotkun hans skoðuð og staðsetning síma hans.