Talskona úkraínska hersins sagði í samtali við fjölmiðla á þriðjudaginn að úkraínski herinn hafi náð mjög góðum árangri gegn rússnesku hersveitunum.
„Okkur tókst að hæfa og eyðileggja stórskotaliðsbyssur, skriðdreka, ökutæki, brynvarin ökutæki og loftvarnarkerfi. Með öðrum orðum, vinna okkar við að hreinsa fremstu víglínurnar á austurbakkanum hefur verið ansi öflug en við erum enn að vinna í þessu,“ sagði talskonan, Natalia Humeniuk.
CNN segir að hún hafi einnig sagt að reikna megi með að málin haldi áfram að þróast á næstunni.
Hún sagði að Rússar væru að flytja íbúa á brott frá svæðinu og það geri vinnu úkraínsku hermannanna mun auðveldari. Rússar reyna að hennar sögn að flytja íbúana á sömu staði og rússnesku hersveitirnar eru að flytja sig á. Af þeim sökum sé starf úkraínsku hermannanna auðveldara því Rússarnir geti ekki falið sig á bak við almenna borgara.