Þetta sagði Kyrylo Budanov, yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar, í samtali við úkraínska miðilinn RBC.
„Hvenær þetta byrjar, verður áfram leyndarmál en allir vita að við nálgumst,“ bætti hann við.
Viðtalið er rúmlega 50 mínútur og var tekið upp fyrir nokkrum dögum. Í því lagði Budanov áherslu á að lokamarkmið Úkraínumanna sé enn að endurheimta hernumdu svæðin og koma á sömu landamærum og voru eftir hrun Sovétríkjanna 1991. Það þýðir að Donbas og Krím þurfa að komast aftur á úkraínskar hendur.
Hann sagði engu máli skipta í hvaða röð þetta verður gert og að líklega muni leyndarhjúpur hvíla áfram yfir aðgerðum úkraínska hersins.
„Ég tel að töluvert stórt landsvæði verði endurheimt með valdi í aðgerðinni. Í hvaða átt, hvar og hvenær vil ég ekki segja neitt um, því miður. Ef Krím verður síðasta svæðið sem verður frelsað, þá eru það lokin. Ef Krím verður frelsað fyrst, áður en Donbas verður frelsað, þá lýkur því ekki þar,“ sagði hann.
Yfir skrifborði hans er stórt kort af Moskvu, höfuðborg Rússlands. Það sést greinilega nokkrum sinnum í viðtalinu en ekki er minnst á það. En í eldra viðtali var hann spurður út í það. Þá svaraði hann: „Aðalmarkmið þeirra var Kyiv. Af hverju ætti ég ekki að skoða kort af Moskvu?“
The Washington Post segir að fyrir nokkrum mánuðum hafi Budanov undirbúið stóra árás á Moskvu og átti að gera hana þann 24. febrúar, þegar eitt ár var liðið frá því að innrás Rússa hófst.
Segir miðillinn að í árásinni hafi átt að nota „allt“ það leyniþjónustan gat dregið fram og byggir þetta á upplýsingum úr leyniskjölum Bandaríkjahers.
Bandaríkjamönnum tókst þó að koma í veg fyrir að árásin væri gerð.