fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Ragnar Þór svartsýnn: „Staðan á bara eftir að versna“ – Almenningur þarf að rísa upp

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 25. apríl 2023 13:30

Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að fjárhagsstaða íslenskra heimila muni að óbreyttu halda áfram að versna. Mikilvægt sé að koma yfirvöldum í skilning um að ekki verði lengra gengið gegn hagsmunum almennings í landinu.

Ragnar Þór var gestur Gunnars Smára Egilssonar í Rauða borðinu á Samstöðinni í dag.

Ragnar boðaði á Facebook-síðu sinni í síðustu viku til mótmæla í tilefni leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fram fer hér á landi í maí. Spurði Ragnar hvort ekki væri tilvalið að sýna umheiminum skoðun okkar á algjöru sinnuleysi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans gagnvart hagsmunum almennings í landinu.

Staðan á eftir að versna

Ragnar ræddi þessi mál og fleiri í viðtalinu við Gunnar Smára. Þar var hann meðal annars spurður hverju hann vildi mótmæla.

„Við erum auðvitað bara að fara mótmæla hrikalegri stöðu og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Við erum líka að gera tilraun til að koma fólki í skilning um að meira verður ekki gert og lengra verður ekki farið af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma heimilum til hjálpar á þessum erfiðu tímum,“ sagði Ragnar og nefndi til dæmis að húsnæðiskostnaður hefði stökkbreyst, hvort sem það er af lánum eða af leigu.

Þá nefndi hann að opinber gjöld hefðu hækkað mikið og þau muni halda áfram að hækka miðað við nýja fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin sé augljóslega ekki hætt miðað við fjármálaáætlunina sem var lögð fram í lok marsmánaðar.

„Þar kemur margt athyglisvert fram eins og að helsta ógnin við verðbólgu og stöðugleika séu komandi kjarasamningar. Þannig að fólki verður algjörlega ljóst að meira verður ekki gert. Staðan á eftir að versna og þetta er í rauninni bara síðasta vígið, það er fólkið í landinu,“ sagði Ragnar Þór.

Grunnþjónusta í ruglinu

Hann nefndi að gamla fólkið væri að deyja á biðlistum og fólk sem þarf að sækja sér þjónustu á bráðamóttökuna þurfi að bíða klukkustundum saman.

„Algengur biðtími eftir þjónustu eru kannski 6-8 klukkustundir. Fólkið er látið bíða á göngum spítalanna innan um örmagna heilbrigðisstarfsfólk sem er búið að öskra sig raddlaust yfir ástandinu. Það er eiginlega alveg sama hvar er drepið niður í grunnþjónustu,“ sagði Ragnar og benti til dæmis á uppsagnir á mikilvægu opinberu starfsfólki í Árborg þar sem verið er að skera niður.

„Þetta er það sem koma skal. Seðlabankinn er að kalla á frekara aðhald og niðurskurð frá ríkinu og mun að öllum hækka vexti töluvert mikið meira áður en þeir fara aðs tanda í stað eða lækka. Þannig að staðan á bara eftir að versna,“ sagði Ragnar sem hefur litla trú á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.

„Ég hef nú setið svo marga fundi með stjórnvöldum, ég hef bara ekki tölu á þeim þar sem ég hef setið með Sigurði Inga, Bjarna eða Katrínu, hvort sem það er á vettvangi þjóðhagsráðs, eða bara með þeim þremur og okkur í verkalýðshreyfingunni, og þeim finnst þau vera að gera alveg ofboðslega margt fyrir fólkið í landinu. Þeirra búbbla er svo lokuð að það nær ekkert í gegn.“

Neyðarlán á 11-15% vöxtum

Ragnar Þór sagði stöðuna í dag vera öðruvísi en í bankahruninu að því leyti að stór fyrirtæki eru að græða á tá og fingri.

„Það var nú bara frétt í Viðskiptablaðinu í dag þar sem er bara nánast aðkomuviðvörun í bankakerfinu,“ sagði Ragnar og bætti við að gríðarleg tilfærsla á fjármunum eigi sér nú stað frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum út af stýrivaxtahækkunum Seðlabankans. Staðan sé þannig að vaxtatekjur bankanna hafa sjaldan eða aldrei verið meiri og þær muni bara aukast áfram.

„Þetta er tilfærsla á fjármunum. Ég var síðan að kynna mér úrræðin hjá bönkunum síðast í morgun. Þar eru bankarnir að bjóða neyðarlán til að redda hlutunum og þar er verið að bjóða fólki lán á 11-15% vöxtum til allt að sex ára. Síðan er lántökugjald upp á 3%. Þetta er bara skipulögð glæpastarfsemi sem er að eiga sér stað. Hér var svo verið að vígja glæsilega steinprýdda glerhöll niðri í bæ fyrir gróða síðustu ára. Mér er búið að vera misboðið lengi og búinn að átta mig á því í töluvert langan tíma að við munum ekki ná utan um þennan vanda.“

Ragnar segist sjá fram á að þúsundir heimila tvöfaldi greiðslubyrði sína þegar fastir vextir renna sitt skeið í haust og byrjun næsta árs. Eina leiðin fyrir fólk til að bregðast við þessum stökkbreytta framfærslukostnaði sé að fara yfir í verðtryggðu lánin.

„Og þeir sem hafa tekið námslán eða hafa verið með slík lán vita hvernig verðtryggða umhverfið er og hvers konar glæpalán þetta eru, enda bönnuð í öllum siðmenntuðum ríkjum til neytenda. Þetta er vegferð sem er komin af stað sem endar í sjálfu sér bara með því að við endum í álíka eignaupptöku og við vorum að horfa á í eftirmálum hrunsins,“ sagði Ragnar Þór en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum
Talaði Trump af sér?