Skiptalok urðu í þrotabúi Fellabaksturs á Egilsstöðum þann 12. apríl síðastliðinn. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur voru 84.358.999 kr.
Félagið var lýst gjaldþrota í janúar. Eigandinn, Þráinn Lárusson, sagði þá í viðtali við Austurfrétt að samkeppni við verksmiðjubakarí hefði verið erfið. „Ég held að við höfum verið orðið eina bakaríið á landsbyggðinni sem framleiddi brauð í plastpokum í verslanir. Í byrjun árs fengum við gagnrýni þegar við hættum að keyra brauði niður á firði þannig að verslanirnar gátu ekki fyllt á með okkar brauði eftir áramótin. Því miður gengur það ekki upp að reka bakaríið hér þannig að það selji brauð þegar hin eru ekki til, eftir löng frí eða stórar helgar. Við getum ekki keppt við stóru verksmiðjubakaríin þar sem mannshöndin kemur nánast hvergi nærri heldur tölvur stjórna færiböndunum og brauðin eru send inn á frysti. Á sama tíma eru launahækkanir og síðan hefur allt korn hækkað vegna stríðsins í Úkraínu,“ sagði Þráinn.
Þráinn sagði ennfremur: „Mér finnst mjög sárt að svona hafi farið og við höfum tapað miklum peningum á þessu.“