Dómur er fallinn í máli Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Heimildarinnar, og Arnars Þórs Ingólfssonar, blaðamanns Heimildarinnar, gegn Páli Vilhjálmssyni, bloggara og kennara. Höfðu þeir betur gegn og voru tilgreind ummæli hans um þá dæmd dauð og ómerk og Páli gert að greiða hvorum um sig 300 þúsund krónur í miskabætur og 750 þúsund krónur í málskostnað.
Tilefni málsins voru skrif Páls á bloggsíðu hans þar sem hann sagði Þórð og Arnar hafa átt hlut í því að byrla Páli Steingrímssyni skipstjóra og í stuld á síma hans.
Ummælin voru eftirfarandi: „Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, […] eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.“
Hafa þessi ummæli nú verið dæmd ómerk.
Eins voru dæmd ómerk ummæli Páls um að saksóknari muni gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, en það er nafn sem Páll bjó til yfir Ríkisútvarpið, Stundina og Kjarnann.
Fóru Þórður og Arnar fram á 1,5 milljón í bætur, hvor um sig. Eins kröfðust þeir þess að Páli yrði gert að greiða allan málskostnað og að ummæli hans yrðu dæmd dauð og ómerk.
Við aðalmeðferð bar lögmaður Páls því við að hann nyti tjáningarfrelsis og í bloggfærslunum umdeildu hafi hann hreinlega verið að lýsa skoðunum sínum. Skrifin byggðu á opinberum gögnum og hafi engar rangar sakargiftir verið hafðar uppi.
Lögmaður Þórðar og Arnar tók fram að með skrifum sínum hefði Páll vegið að faglegum heiðri þeirra og að þeim persónulega. Hefði hann beinum orðum sakað þá um hlutdeild í refsiverðum verknaði.
Arnar greindi frá því við aðalmeðferð málsins að það hafi valdið honum ama og óþægindum í einkalífi og starfi að sitja undir ásökunum Páls.
Þórður greindi frá því fyrir dómi að hann hefði aldrei hitt Pál Steingrímsson skipstjóra, aldrei stolið af honum síma og ekki átt þátt í að byrla honum eða nokkrum öðrum. Þetta hafi slegið hann mikið þó hann sé ýmsu vanur og hafi hann ítrekað þurft að útskýra fyrir fjölskyldu sinni og fjölmiðlafólki að þessar ásakanir ættu sér enga stoð í veruleikanum.
Páll greindi frá því þann 9. maí síðastliðinn að honum hefði borist krafa frá tvímenningunum um að Páll myndi draga ummælin til baka og biðjast afsökunar á þeim ellegar sæta málsókn. Páll kaus hins vegar að gera það ekki.
„Ef það má ekki segja opinberlega almælt tíðindi, þótt þau komi við kaun blaðamanna, má pakka tjáningarfrelsinu saman og senda það í Gúlagið,“ skrifaði Páll eftir að honum hafði verið stefnt í málinu.
Fréttin hefur verið uppfærð