Þórarinn Leifsson, leiðsögumaður og rithöfundur, segir Ísland vera að drukkna af erlendum ferðamönnum. Í færslu á Facebook segir hann fáa spá í eða fjalla um þessa staðreynd og frammámenn ferðaþjónustunnar upptekna við að móðgast ef einhver gagnrýnir ferðaþjónustuna.
Spyr hann sig hvernig staðan verði í sumar, þegar hún er svona slæm í lok febrúar.
„Ég hef verið gæd síðan haustið 2017, með smá pásu í Covid. Núna í lok febrúar 2023 fæ ég í fyrsta sinn á tilfinninguna að Ísland sé að drukkna. Ég veit að þetta hljómar fáránlega, en svona leggst þessi tilfinning yfir mig. Við erum að drukkna í erlendu fólki með flíshúfur sem þarfnast skyndikynna og þjónustu á hjara veraldar,“ segir Þórarinn.
„Ekki misskilja mig samt – ég hef unun af því að eiga samskipti við skemmtilegt fólk á nokkrum tungumálum. En þetta er bara að verða of mikið núna. Röðin í á kaffihúsinu í Reynisfjöru nær oftast út fyrir húsið og ein af þessum pólsku sem vinna þar segist varla hafa náð að hvílast í tíu daga. Það er krökkt af fólki uppi við Sólheimajökul. Bensínstöðin á Hvolsvelli er yfirleitt stappfull af fólki. Stæðið við Geysi er sprungið, stæði við Skógarfoss sömuleiðis … og svo framvegis. Hvernig verður þetta í sumar? Það virðast mjög fáir vera að pæla í þessu eða fjalla um það. Forkólfar ferðaþjónustunnar virðast einungis uppteknir við að móðgast ef einhver dirfist að gagnrýna bransann. Er einhver þarna úti að marka stefnu næstu ára? Eða á þessi ringulreið bara að halda áfram svona þangað til að við dettum úr tísku? Ég veit það ekki, mig skortir yfirsýn.“
Margir tjá sig undir færslunni, þar á meðal tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. Segir hann lausnina einfalda:
„Loka landinu án gríns. Nei ég meina þetta en það mun aldrei verða landið er að verða eitt svöðusár.“