Þetta staðfesti Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, í samtali við Fréttablaðið. Hún sagði þessa þróun hafa hafist í heimsfaraldrinum 2020 og ekkert lát sé á henni. „Þetta er eitthvert nýtt mynstur. Þeir sem drekka, drekka oftar og meira,“ sagði hún.
Veitingamenn, sem Fréttablaðið ræddi við, tóku í sama streng og sögðust hafa tekið eftir þessari breytingu. Einn sagði að menn sitji nú lengur við drykkju en áður og sagðist telja ástæðuna tvíþætta: „Stóru breytuna má rekja til samkomutakmarkana í byrjun árs 2020 þegar fólk var meira og minna heima hjá sér, þegar það tók að deyfa leiðindin með áfengi, en líklega hefur stytting vinnuvikunnar einnig leitt til meiri drykkju.“
Annar sagðist hafa tekið eftir því síðustu misseri að menn komi fyrr og sitji lengur, sérstaklega á föstudögum þegar vinnudagurinn er einna stystur.