Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 20. febrúar síðastliðinn í máli sem varðar bílakaup í gegnum söluvefinn bland.is. Kaupandi að notuðum Audi krafðist þar þess að staðfest yrði riftun hans á kaupnunum en hann rifti þeim í mars árið 2021.
Bíllinn var auglýstur til sölu á Bland fyrir 890 þúsund krónur en maðurinn keypti bílinn á 650 þúsund krónur, staðgreitt. Í auglýsingu og upplýsingum frá seljanda bílsins var tekið fram að vélin hefði verið gerð upp fyrir 2000 km síðan en samtals var bíllinn ekinn 164 þúsund km.
Stuttu eftir að kaupandinn festi kaup á bílnum varð hann var við óeðlilegt til í vél bílsins og segir hann bílinn síðar hafa orðið óökufæran. Krafðist hann auk kaupverðsins að fá greiddan útlagðan kostnað við viðgerðir á bílnum og var krafan samtals upp á rúmlega 850.000 krónur.
Seljandi bílsins hafnaði kröfunni og benti á kaupandinn hefði vanrækt skoðunarskyldu sína sem væri mjög rík þegar í hlut ætti svo gamall bíll. Ennfremur sagði hann að hann hefði sjálfur ekið bílnum vandræðalaust í 2000 km eftir breytingar á vélinni. Bilanir gætu því vel átt sér upptök eftir söluna.
Það var niðurstaða dómkvadds matsmanns fyrir dómi að við endurbætur fyrri eiganda á vélinni hefði verið tekist á við afleiðingar en ekki orsakir. Óafturkræfar skemmdir hefðu orðið á vélinni svo skipta þyrfti um vél. Í texta dómsins segir:
„Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds manns þar sem tíundaðar eru orsakir bilunar í vél bifreiðarinnar, sem matsmaður telur að einkum megi rekja til þess að
smurolíuþrýstingur hafi um tíma verið of lítill og á endanum enginn, þar sem bolti fyrir tannhjól á jafnvægisás við keðjudrif fyrir smurolíudælu, hafi farið í sundur. Þá greinir í matsgerð að ástæðu þess megi helst rekja til þess að smurolíudæla og svokallaðir jafnvægisásar, sem séu sambyggðir smurolíudælunni, hafi fest og hætt að snúast. Í kjölfar þess hafi vélin á skömmum tíma orðið fyrir óafturkræfum skemmdum. Matsgerðin er greinargóð og ágætlega rökstudd og fellst dómurinn á þær lýsingar sem matsmaður leggur til grundvallar sem ástæða skemmda á vélarbúnaði bifreiðarinnar, enda hefur matsgerðinni ekki verið hnekkt.“
Í dómnum er vísað til 21. greinar laga um lausafjárkaup en þar segir:
„Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar. Seljandi ber einnig ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu gallans má rekja til vanefnda af hans hálfu. Sama á við þegar seljandi hefur með ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum hætti ábyrgst að hluturinn hafi tiltekna eiginleika eða að hlut megi nota með venjulegum eða sérstökum hætti tiltekinn tíma eftir afhendingu.“
Ljóst er af skýrslu matsmannsins að orsakir ástands bílsins má rekja frá því áður en kaupin voru gerð og því telst seljandinn bera ábyrgð á því. Var það niðurstaða dómara að ganga að öllum kröfum kaupanda bílsins sem rifti kaupunum. Var seljandinn dæmdur til að greiða honum rúmlega 850 þúsund krónur og svo ríflega annað bílverð í málskostnað, 900 þúsund krónur.