Með heimsókninni sendi Biden sterk skilaboð um stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu og það aðeins fjórum dögum áður en ár verður liðið frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu. En þetta eru einnig skilaboð um að Bandaríkin geti skipulagt leynilega heimsókn forsetans til stríðshrjáðs lands.
New York Times segir að Biden hafi náð að yfirgefa Washington D.C. með mikilli leynd undir því yfirskini að hann ásamt eiginkonu sinni, Jill Biden, ætlaði að snæða kvöldverð á veitingastað á laugardagskvöldið. En hann snæddi ekki á veitingastaðnum heldur flaug hann til Póllands.
Síðan tók við hættuleg og leynileg ferð til Kyiv með járnbrautarlest frá pólsku landamærunum. Það er allt of hættulegt að ferðast með flugvél í úkraínskri lofthelgi.
Hann fór því sömu leið til Kyiv og aðrir þjóðarleiðtogar hafa gert frá upphafi stríðsins.
Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt að Biden myndi fara til Póllands til að funda með Andrezej Duda, forseta Póllands, og að um tveggja daga heimsókn yrði að ræða.
En heimsóknin til Kyiv kom nær öllum á óvart og var skiljanlega haldið leyndri af öryggisástæðum.
Til að láta líta út fyrir að ekkert óvenjulegt væri á seyði sendi Hvíta húsið út opinbera dagskrá á sunnudagskvöldið. Í henni kom fram að Biden væri enn í Washington D.C. og að hann myndi ekki fljúga til Varsjá fyrr en á mánudagskvöldið þar sem hann myndi lenda á þriðjudagsmorgun.
En forsetinn og nánasta samstarfsfólk hans blekktu allt og alla því hann var þá þegar kominn til Evrópu.