Þekktur eltihrellir var á síðasta ári sakfelldur fyrir kynferðisbrot, stórfelldar ærumeiðingar og stórfelld brot í nánu sambandi með því að hafa endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð fyrrverandi eiginkonu sinnar og barnsmóður.
Meðal gagna í því máli voru upptökur af símtölum sem þolandi mannsins tók upp og afhenti lögreglu. Mat dómari þau gögn áreiðanleg og taldi að hægt væri að byggja niðurstöðu málsins á upptökunum.
Maðurinn taldi þó að þar sem símtölin höfðu verið hljóðrituð án hans samþykkis og án hans vitundar hafi ekki verið heimilt að miðla þeim til lögreglu, héraðssaksóknara, dómstóla og lögmanna. Leitaði hann því til Persónuverndar með mál sitt sem kvað upp úrskurð sinn þann 7. febrúar.
Segir í úrskurði Persónuverndar að ágreiningur hafi verið um hvort að þolanda mannsins hafi verið heimilt að hljóðrita símtöl við hann án hans vitundar og samþykkis og í kjölfarið miðla þeim svo áfram til yfirvalda.
Þolandinn bar því við að upptökurnar hafi verið liður í sjálfsvörn hennar, en hún hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu mannsins og hafi hluti af því verið andlegt ofbeldi. Hún hafi aðeins afhent lögreglu upptökurnar vegna kæru sem hún hafði lagt fram gegn fyrrverandi maka sínum vegna brota sem hann var svo sakfelldur fyrir.
Persónuvernd rakti að hljóðritun símtalanna hafi einungis verið í þágu þolanda og fjölskyldu hennar og hafði engin tengsl við atvinnu- eða viðskiptastarfsemi heldur hafi verið um venjulegar lögmætar athafnir að ræða sem vörðuðu hreina einkahagi hennar. Persónuvernd sagði að það væri því mat stofnunarinnar að hljóðritun hafi fallið utan efnislegs gildissviðs persónuverndarlaga.
Ekki ætti við ákvæði fjarskiptalaga um að tilkynna beri viðmælanda um þá fyrirætlað, að hljóðrita símtal, í upphafi símtalsins. Byggðist það mat á því að hljóðritunin sem slík hafi ekki falið í sér vinnslu persónuupplýsinga sem heyri undir gildissvið laganna. Hafi því ekki verið skylt að upplýsa um hljóðritun við þær aðstæður sem uppi voru í málinu.
Varðandi miðlun hljóðritananna til lögreglu segir að þolandi hafi leitað til lögreglu vegna „alvarlegs og ítrekaðs ofbeldis kvartana í hennar garð“ og hafi hún lagt fram kæru og lagt fram hljóðritanir sem sönnunargagn. Slík miðlun falli undir persónuverndarlögin og þá komi til álita hvort heimild hafi verið fyrir miðluninni.
„Það er mat Persónuverndar að það hafi verið [þolanda] nauðsynlegt að miðla umræddum hljóðritunum með persónuupplýsingum um kvartanda til að verja einkalíf sitt og öryggi og að hún hafi átt lögmæta hagsmuni af þeirri vinnslu. Þá verður ekki séð að lögmætir hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi kvartanda, sem krefðust verndar persónuupplýsinga um hann, hafi vegið þyngra.“
Var því heimild fyrir miðluninni. Þolandi hafi haft brýna hagsmuni af því að miðla umræddum upplýsingum til lögreglu án þess að upplýsa manninn um það. Hagsmunir hennar hafi því vegið þyngra en hagsmunir hans.