Morgunblaðið skýrir frá þessu og segir þetta vera viðbrögð SA við því að í gær slitnaði upp úr samningaviðræðum SA og Eflingar. Frestuð verkföll Eflingar hófust á nýjan leik á miðnætti.
„Verkbann er algjört neyðarúrræði í vinnudeilum,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði stjórn SA nauðbeygða til að grípa til þessara aðgerða til að lágmarka tjónið af völdum verkfalla.
Hann sagði niðurstöðuna í viðræðum helgarinnar hafa verið mikil vonbrigði. Sérstaklega í ljósi þess að SA hefðu komið mjög til móts við Eflingu, til dæmis með „Eflingarsamningum fyrir Eflingarfólk“ en það hafi ekki dugað til. „Ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá mun meiri hækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins er óaðgengileg,“ sagði Halldór og bætti við að Efling hafi gert fjölda annarra krafna, sem ekki hafi verið uppi á borðinu í viðræðum við önnur stéttarfélög.
Hægt er að lesa nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.