Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, fékk óþægileg rafræn skilaboð í vikunni frá konu sem hún þekkir ekki. Konan heitir Helga Berglind Jónsdóttir og sendi Semu Erlu eftirfarandi einkaskilaboð snemma aðfaranótt föstudagsins:
„Ég þarf eitthvað að skoða þig. Og þitt eðli og hvaðan þú kemur. Og hvað þú ert að gera á Íslandi“
Seint á föstudagskvöld komu síðan önnur skilaboð frá Helgu til Semu:
„Ég er búin að skoða það og hef komist að niðurstöðu, .. Þú ert ekki Íslendingur og hefur engar rætur í hin magnaða Ísenska víking sem hefur margra aldar sögu. Sema Erla Serdar Mín þjóð er byggð upp af vikingum. Og þegar Tyrkja kona reynir að byggja upp flóttamannabúðir, og nýtir sér svo hjarta orku þjóðarinnar því við kunnum að elska. Þá tekur ÓÐINN Í TAUMANA þÚ ERT EKKI VElKOMINN HÉR – Farðu heim til þín. ÓÐINN
Þér er velkomið að heimsækja mig og ég mun reyna að útskýra fyrir þér að þetta rugl þitt er ekki í boði
PUNKTUR“
„Þetta er fyrst og fremst óþolandi áreiti sem enginn á að þurfa að búa við og það er óþolandi hversu varnarlaus við erum gagnvart þessu,“ segir Sema Erla í samtali við DV. Segir hún skilaboðin endurspegla rasisma í samfélaginu:
„Þessi skilaboð eru skýr birtingarmynd fordóma og menningarlegs rasisma í íslensku samfélagi. Vísað er til uppruna míns og mér sagt að ég sé ekki Íslendingur. Þetta er tilraun til þess að brjóta mig niður, niðurlægja og þagga niður í mér. Í fyrri sendingunni eru mjög óþægileg skilaboð um einhvers konar eftirfylgni og skoðun á mér með einhvers konar inngripi í mitt líf og úr þeim seinni má alveg lesa hótun um einhvers konar ofbeldi.“
Sema Erla segir skilaboðin vera ógeðsleg:
„Þetta er eiginlega bara ógeðslegt. Þetta er afleiðing af hatursorðræðu, persónuníði og ærumeiðingum sem nokkrir einstaklingar hafa markvisst stundað gegn mér í hátt í áratug vegna þess hver ég er og hvað ég geri. Það hættir bara aldrei að koma mér á óvart hvernig fullorðið fólk hagar sér og það er ótrúlegt að fólk leyfi sér svona innrás í líf annarra. Ég hef birt margt af því sem ég fæ sent allt frá árinu 2016 í þeim tilgangi að skila skömminni til þeirra sem hana eiga og það eru þeir sem haga sér svona sem eiga alla skömmina. Svona skilaboð segja allt um þann sem þau sendir en ekkert um þann sem fær þau send og ég mun halda áfram að opinbera fullorðið fólk sem finnst í lagi að haga sér svona.“