Gífurlegar drunur kváðu við hjá bensínstöð Olís Álfheimum eftir hádegi í dag. Segir sjónarvottur að sprenging hafi orðið í bíl hjá bensínstöðinni. Lögregla og slökkvilið eru á vettvangi og er búið að loka svæðinu fyrir óviðkomandi umferð.
Tveir voru fluttir á slysadeild vegna slyssins.
DV náði sambandi við Sigurjón Hendriksson hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu:
„Það varð þarna sprenging í bifreið sem stóð við metangasdælurnar hjá Olís Álfheimum. Þarna hefur orðið töluverð sprenging og við vitum ekki hvernig hún kom til, hvort um var að ræða leka eða eitthvað svoleiðis. Við sendum strax nokkra sjúkrabíla á staðinn og bættum fleirum við. Það var enginn eldur sem kom upp en við byrjuðum bara á því að fá lögreglu til að loka með okkur svæðinu, tryggja aðganginn og koma í veg fyrir frekari leka eða eitthvað svoleiðis.“
Aðspurður sagði Sigurjón að tveir hafi verið fluttir á slysadeild en ekki er vitað um líðan þeirra.