Daníel O. Einarsson, formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, segir að enn sé von um að takmarka megi þann skaða sem ný löggjöf um leigubifreiðar muni óhjákvæmilega valda ef vandað verði til nýrrar reglugerðar samgönguráðherra sem sett verður á næstunni með stoð í lnýju lögunum. Þetta kemur fram í aðsendri grein Daníels á Vísi þar sem hann er ómyrkur í máli í garð nýju laganna sem að hann segir að alþingsmenn hafi samþykkt vegna þekkingarleysis.
Í nýju lögunum verður einstaklingum og rekstraraðilum gert heimilt að reka leigubíl án þess að vera bundnir við bifreiðastöð eða hafa starfið að aðalatvinnu. Slíkt opnar fyrir mögulega starfsemi deilubílaþjónusta líkt og Uber sem rutt hafa sér til rúms erlendis. Margir neytendur telja eflaust að það sé hið besta mál en Daníel dregur upp dekkri mynd og segir að verið sé að gera sömu mistök og í nágrannaríkjum okkar þar sem öngþveiti og stórfelld skattaundanskot eiga sér stað, að hans sögn.
Fullyrðir Daníel að stóru alþjóðlegu risarnir hirði stóran hluta af ágóða starfseminnar, og flytji hann úr landi, en neytendur sitji uppi með verri þjónustu. Þannig muni svokallaðar rjómafleytingar eiga sér stað, þar sem að margir myndu vinna eingöngu þegar að eftirspurnin er mest en utan þess tíma yrði þjónustan verri.
„Nýju lögin opna fyrir svindl og mismunum, sem meðal annars kann að birtast í miklum mun milli rekstraraðila, annars vegar einyrkja og hins vegar fyrirtækja með mikið fjármagn á bakvið sig. Fjársterkari aðilar munu hæglega geta tælt neytendur með gylliboðum á eigin kostnað með hagnað í framtíðinni að leiðarljósi. Rétt eins og farveiturnar erlendis hafa stundað; að hækka og lækka verð eftir markaðshegðun og álagstímum til að drepa niður starfsemi einyrkja. Fyrir vikið hefur vantað bíla utan háannatíma og þjónusta við neytendur því stórum verri en fyrr,“ skrifar Daníel.
Lögin eiga að taka gildi þann 1. apríl næstkomandi þó að Daníel telji réttast að gildistökunni yrði frestað meðan mat væri lagt á afleiðingar slíkra laga á Norðurlöndunum. Mikið sé þó undir varðandi nýja reglugerð og þar segir hann mikilvægt að vandað verði til verka.
„Þar þarf að kveða skýrt á um fagmennsku í greininni og þar með neytendavernd. Viðhalda þarf kröfu um símsvörun svo dæmi sé tekið og að bifreiðastjórar hafi staðist íslenskupróf, en í lögum um danska leigubifreiðastjóra er t.a.m. ákvæði þess efnis að enginn fái að aka leigubifreið þar í landi nema hafa undirgengist próf í dönsku. Að sama skapi þarf að hafa inni í reglugerðinni kröfur um hreint sakavottorð og að leyfishafar hafi reynslu af leigubifreiðaakstri. Tryggja þarf með reglugerðinni að ákveðið hlutfall leigubifreiðastjóra sinni þessu starfi að aðalatvinnu. Það tryggir að þjónustu sé haldið uppi alla daga ársins, allan sólarhringinn. Tryggja þarf ákveðna lágmarksumgjörð lögverndunar svo þessi mikilvægi hlekkur í samgönguinnviðum landsins verði ekki eyðilagður,“ skrifar Daníel.
Hann segir að reiðin kraumi í leigubílstjórum eftir að ráðamenn hafi lítið vilja á þá hlusta í aðdraganda lagasetningarinnar. Stéttin beri þó þá von í brjósti að hlustað verði þegar kemur að reglugerðarvinnunni. Þar sé til að mynda afar mikilvægt að eftirlit verði eflt með ólögmætri starfsemi í greininni. „Með fjölgun leigubifreiða mun þörfin fyrir eftirlit aukast mjög enda hætt við að leigubifreiðaakstur verði skálkaskjól fyrir hvers kyns glæpastarfsemi,“ skrifar Daníel.