Landsréttur sakfelldi á föstudag Gabríel Aron Sigurðarson fyrir ofbeldisbrot sem átti sér stað á skemmtistað á Vestfjörðum sumarið 2021.
Gabríel Aron var sakaður um að hafa ráðist að manni á salerni staðarins. „…ýtt honum með þeim afleiðingum að hann féll á hurðarkarm og síðan í gólfið, og slegið hann í kjölfarið í höfuð og líkama, en við árásina hlaut brotaþoli bólgu, mar og skrámur við vinstra auga og gagnauga, 1 cm skurð 12 mm á dýpt við enda á hægri augabrún, bólguhnúða og þreifieymsli í hársverði, afrifu, blæðingu og mar inn við neðri vör og vinstra munnvik, rispur á hægra herðablaði og vinstra megin á brjóstkassa, skrámur á vinstri olnboga, dauf brúnleit för á handleggjum beggja vegna og bólgu og þreifieymsli hliðlægt yfir vinstra ökklabeini,“ eins og segir í ákæru.
Gabríel Aron neitaði sök en Héraðsdómi Vestfjarða, sem réttaði í málinu í fyrra, fannst ekki fullsannað að hann væri maðurinn sem hefði verið að verki, þó að augljóst væri að brotaþolinn hefði orðið fyrir árás.
Landsréttur var ósammála héraðsdómi og í dómnum er rakið ýmislegt sem ýtir undir sekt Gabríels, meðal annars eftirfarandi:
„Vitnið D , sem var á veitingahúsinu með brotaþola umrætt kvöld, fann síma á salernisgólfinu sem hún hélt í fyrstu að brotaþoli ætti, en hann sagði að árásarmaðurinn hefði verið með símann inni á salerninu og verið að senda skilaboð úr honum D þar sem hann stóð við einn vaskinn. Á upptöku úr búkmyndavél lögreglu má sjá vitnið taka símann upp af gólfinu. Var lagt hald á símann í þágu rannsóknar málsins og leiddi athugun lögreglu á símanum í ljós að hann hringdi þegar hringt var í símanúmer ákærða.“
Var Gabríel dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og til greiðslu rúmlega 1,1 milljónar króna í sakarkostnað. Dóminn má lesa hér.
DV fjallaði töluvert um mál Gabríels Arons á síðasta ári en þá var hann sakfelldur fyrir húsbrot og líkamsárás. Hann var einnig sakaður um blóðuga árás á konu þar sem hún lá í rúmi sínu.
Árásinni sem Gabríel var sakfelldur fyrir í fyrrahaust var lýst svo í ákæru:
„Fyrir húsbrot, líkamsárás og hótun, með því að hafa laugardaginn 18. desember 2021 ruðst inn í íbúð A, kt. […]að […] í Reykjavík og kjölfarið veist með ofbeldi að A, með því að slá hana hnefahöggi í andlitið, hrinda A þannig að hún féll í gólfið, síðan hótað að drepa hana, þannig að A óttaðist um líf sitt og velferð og í framhaldinu slegið hana hnefahöggi í andlitið hægra megin, allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar í kringum hægra auga og vægan heilahristing. M. 007-2021-[…]“
Konan sem varð fyrir þessari árás heitir Birna Karen Þorleifsdóttir og ræddi hún málið við DV síðastliðið sumar en þá hafði Gabríel Aron verið ákærður. Hún náði árásinni á öryggismyndavél.
„Ég keypti mér öryggismyndavél í einhverju flippi og síðan gerist þetta!“ segir Birna Karen. Hún sagði ennfremur:
„Ég var bara að tjilla með vinkonu minni sem ég hafði ekki hitt lengi og við vorum að taka upp TikTok vídeó, en hann var eitthvað að rífast við hana í símanum. Hann beið síðan fyrir utan hurðina hjá mér. Þegar ég hleypi henni út ryðst hann inn og byrjar að kýla mig. „Hann ryðst inn og byrjar að kýla mig í gólfið. Ég var með gervihár og hann ætlaði svoleiðis að smalla mér í vegginn.“ Birna segir að Gabríel Aron hafi kýlt sig með hnúajárnum.
Gabríel Aron var sakaður um aðra mjög alvarlega líkamsárás sem átti sér stað í júní síðastliðið sumar. DV fjallaði um það mál. Kona ein sakaði hann um að hafa ráðist inn í íbúð hennar og stungið hana með hnífi þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu. Rúm konunnar var blóðugt eftir árásina. Konan segir að Gabríel Aron hafi áður verið vinur hennar. „Ég taldi hann vera vin minn,“ segir hún en árásin var nánast tilefnislaus, eða: „Ég svaraði ekki síma.“
Konan var mjög óttaslegin er hún ræddi við DV í fyrrasumar vegna þess að Gabríel Aron var látinn laus úr haldi lögreglu aðeins sex dögum eftir árásina. DV er ekki kunnugt um stöðuna á því máli í réttarkerfinu.
Í dómnum sem kveðinn var upp yfir Gabríel Aron síðasta haust játaði hann öll brot, þar á meðal húsbrotið og árásina sem náðist á öryggismyndavél. Hann var einnig ákærður fyrir vopnalagabrot, þ.e. fyrir að hafa haft í fórum sínum hníf á almannafæri. Við annað tækifæri var hann sakaður um að hafa haft í fórum sínum rafstuðbyssu og sveðju. Hann var auk þess ákærður fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot og var sviptur ökurétti ævilangt.
Játningin var virt honum til refsilækkunar en hann var dæmdur í 8 mánaða fangelsi. Hann var ennfremur dæmdur til að greiða Birnu Karen 350 þúsund krónur í miskabætur.