Allt hefur þetta gerst áður en nú er þetta öðruvísi því í fyrsta sinn hefur veiran borist úr spendýri í spendýr. Þetta veldur miklum áhyggjum hjá sérfræðingum sem óttast að veiran, sem er venjulega miklu banvænni en kórónuveiran, geti stökkbreyst og smitast á milli fólks.
Ástæðurnar fyrir þessum áhyggjum er ný þróun á ákveðnum stað þar sem ein ákveðin tegund dýra er til staðar. Augu vísindamanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar beinast því stíft að þessum stað þessa dagana.
Þetta er minkabú á Spáni. Í október barst H5N1 á milli spendýra þar, það er að segja veiran barst á milli minka. TV2 skýrir frá þessu.
Vísindamenn hafa áhyggjur af þessu smiti á milli spendýranna og því að yfirstandandi fuglaflensufaraldur er sá stærsti í sögunni og að þetta geti valdið stökkbreytingum sem geri að verkum að veiran geti borist á milli manna.
Lone Simonsen, prófessor og faraldsfræðingur við háskólann í Hróarskeldu, sagði í samtali við TV2 að áhyggjurnar megi rekja til þess að það veiruafbrigði sem nú dreifist meðal fugla smitist frekar á milli fugla en upphaflega afbrigðið. Hún sagði einnig að veiran, sem fannst í minkunum á Spáni, hafi verið með stökkbreytingu sem gerir henni auðveldara fyrir við að smitast á milli spendýra.
„Það er löng leið, þróunarlega, sem veira verður að fara áður en hún verður að heimsfaraldursógn gagnvart mönnum. Með smitinu á meðal minkana í minkabúinu á Spáni tók hún stórt skref í þá átt,“ sagði Simonsen.