Birgir Rúnar Sæmundsson, 68 ára gamall, fyrrum sjómaður á Stokkseyri og ellilífeyrisþegi, heldur úti YouTube-rásinni Fishing in Iceland. Yfirskattanefnd staðfesti 25. janúar síðastliðinn endurákvörðun ríkisskattstjóra um að Birgi bæri að greiða tekjuskatt hér á landi af auglýsingum á YouTube-rásinni. Skattstofn hans var hækkaður um tæpar fjórar milljónir króna að viðbættu 25% álagi.
Í viðtali við Heimildina segir Birgir að hann telji skattayfirvöld ganga hart fram gegn nær eignalausum eldri borgara. Hann hefur samið um greiðslur af skuldinni, 10.000 kr. mánaðarlega, sem hann segir þó ekki ná að dekka vexti sem falla til mánaðarlega. Starfsmaður skattsins á Selfossi hafi tjáð honum að vaxtagreiðslan af skuldinni væri rúmlega tvöföld sú upphæð. Hann sér því ekki fram á að ná að greiða skuldina niður. „Skattaskuldin hækkar alltaf og ég er 68 ára gamall. Kannski hrekk ég upp af einhvern tímann fljótlega og þá skiptir þetta engu máli. En ef ég lifi eitthvað áfram fer þetta með mér í gröfina, þetta drasl,“ segir Birgir.
Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að kærandi, Birgir er ekki nafngreindur í úrskurðinum, hafi fengið mánaðarlega greitt inn á reikning sinn hér á landi vegna birtinga auglýsinga á YouTube-rás sinni. Þær tekjur hafi hann hins vegar ekki gefið upp til skatts vegna gjaldársins 2020 í samræmi við tvísköttunarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna.
Á Fishing In Iceland eru sjö myndbönd sem Birgir hefur sjálfur tekið við störf sín á sjó. Myndböndin eru samanlegt með rúmlega 102 milljónir áhorfa og eru 258 þúsund notendur miðilsins áskrifendur að myndböndum Birgis.
8 milljónir áhorfa eru á átta ára gamalt myndband Birgis.
Í Heimildinni kemur fram að Birgir hafi hætt á sjó fyrir þremur árum vegna veikinda og skuldin sem hann situr uppi með við skattinn nemur um tveimur milljónum króna. „Málið er að þetta var skattfrjálst í Bandaríkjunum fram á vorið 2021. Ekki datt mér í hug að íslenska „skattageimið“ hefði leyfi til að skattleggja það sem Bandaríkjamenn skattleggja ekki einu sinni sjálfir. En skattafrekjan er svo mikil hér að þeir blása á þetta og segja: „Þér bar bara að tilkynna þetta og borga skatt af þessu, vinurinn“,“ segir Birgir við Heimildina. „Ég er ellilífeyrisþegi og það er ekki mikið eftir á mánuði. Ég get ekkert gert í þessu, nema að vinna í Lottó. Það er eina leiðin fyrir mig, en svona bara er þetta bara.“
Birgir hætti að fá tekjur af myndböndum sínum á YouTube árið 2021, en þá var honum varpað úr því sem kallað er YouTube-Partnership af hálfu bandaríska stórfyrirtækisins.
Lesa má viðtalið við Birgi í heild sinni í Heimildinni.