Einstaklingur greindi frá því inni í hópi á Facebook að nýlega hafi öll laun verið tæmd af debetkortareikningi hans í fimm færslum sem merktar voru Apple.
Hafi viðkomandi í kjölfarið haft samband við viðskiptabanka sinn og verið tilkynnt að hann ætti rétt á endurgreiðslu en slíkt gæti tekið 2-3 mánuði.
Sama fyrirtæki hafi svo í gær dregið tæpar 50 þúsund krónur af nýju korti viðkomandi, korti sem hann átti eftir að fá í hendurnar og með kortanúmeri sem aldrei hafi verið notað.
Taldi viðkomandi ljóst að eitthvað væri ekki í lagi hjá Íslandsbanka og spurði hvort fleiri hefðu lent í sambærilegu.
Það könnuðust fleiri við. Einn greindi frá því að maki hans hafi lent í að tvær færslur upp á um 150 þúsund hafi verið teknar af glænýju korti. Það hafi allt fengist til baka og tekið styttri tíma en upprunalega var sagt.
Annar vissi um tvö tilvik í nærumhverfi hans.
Enn annar lenti í því að það væri bilun í appi svo færslur væru skyndilega farnar að fara í gegnum fyrirtækjakort sem viðkomandi væri með skráð.
Sögurnar voru fleiri. Ýmist hafði fólk lent í því að debetkort þeirra voru tæmd eða að teknar voru út færslur sem viðkomandi kannaðist ekki við, í einu tilviki mátti rekja færsluna til Filippseyja, en færslan var merkt GRAB. Sameiginlegi flöturinn á þessum sögum var að flestir voru í viðskiptum við Íslandsbanka og veltu margir fyrir sér hvort bankinn hefði hreinlega orðið fyrir netárás og þrjótar komnir með aðgengi að reikningum viðskiptavina.
Í skriflegu svari Íslandsbanka til DV vegna málsins segir að ofangreind mál séu ótengd og hafi flest fengið afgreiðslu.
Í morgun hafi komið upp atvik í fyrirtækjakortum þar sem upp komu rangar upphæðir. Búið sé að greina þann vanda og upplýsa viðskiptavini og unnið sé hratt að leiðréttingu. Ástæðan fyrir þessu sé uppfærsla á kerfum bankans.
„Það sem varðar svik á kortum einstaklinga þá hafa engir reikningar verið hakkaðir. Líkt og komið hefur fram hafa netsvik aukist mikið og viðskiptavinir varaðir við því að afhenda upplýsingar. Viðskiptavinir hafa verið að afhenda óprúttnum aðilum aðgang að upplýsingum og er það oftast í gegnum samskipti á Facebook, vefveiðar eða sms-veiðum. Í þeim málum sem bankinn er með til meðhöndlunar hafa viðskiptavinir veitt óprúttnum aðilum aðgengi með rafrænum skilríkjum.
Síðan er önnur tegund svika þegar upp koma óþekktar færslur hjá viðskiptavinum en þá eru netþrjótar að gera tilraunir til að komast yfir fjármuni viðskiptavina. Svikavakt bankans fylgist vel með þessum málum. Allar færslur sem viðskiptavinir kannast ekki við né hafa gefið heimild fyrir er bætt fyrir í gegnum endurkröfuferli en leiðrétt sjálfkrafa innan sex daga ef um debetkort er að ræða. Við hvetjum viðskiptavini til að hafa samband ef þeir verða varir við slíkt og ítrekum einnig að viðskiptavinir vari sig á því að veita óprúttnum aðilum upplýsingar um kortanúmer.“
Íslandsbanki birti ennfremur upplýsingar á vef sínum í dag þar sem segir að tilraunum til fjársvika hafi fjölgað töluvert undanfarið og sé þeim bæði beint að einstaklingum sem og fyrirtækjum. Því sé mikilvægt að huga að netöryggi.
Deildi bankinn raunverulegum samskiptum milli þolanda og svikara þar sem samskiptamiðillinn Messenger var notaður til fjársvika. Samskiptin má skoða hér.
Eins er bent á að hafi fólk glatað korti sínu eða hafi grun um óheimilar færslur þá sé því ráðlagt að hafa samband við ráðgjafaver Íslandsbanka í síma 440-4000 sem sé opið í síma frá klukkan 9-16 eða netspjall sem er opið frá 9-17. Utan opnunartíma sé hægt að hafa samband við neyðarþjónustu Íslandsbanka í áðurnefndu númeri. Hægt er að loka kortum eða frysta í gegnum appið til að forðast frekari misnotkun.
Nánari upplýsingar má finna hér