Flugumferðarstjóri sem rekinn var frá Isavia vegna atviks á bjórkvöldi á vegum stéttarfélags flugumferðarstjóra árið 2020 hefur höfðað skaðabótamál á hendur Isavia. RÚV greinir frá þessu.
Hérasdómur vísaði skaðabótamálinu frá en Landsréttur hefur nú fellt þann úrskurð úr gildi og ber héraðsdómi núna að taka málið fyrir.
Flugumferðarstjórinn og samstarfsmaður hans voru kærðir til lögreglu vegna umrædds atviks og voru þeir sagðir hafa brotið gegn konu um tvítugt sem var nemandi í flugumferðarstjórn.
Flugumferðarstjórinn krefst skaðabóta frá Isavia, hann telur telur uppsögnina hafa verið ólögmæta og valdið honum tjóni. Isavia hafi brotið með saknæmum hætti gegn réttindum hans og hvorki fylgt viðeigandi reglum né þeim skyldum sem á félaginu hvíldu. Tjón hans felist í tekju- og réttindatapi, röskun á stöðu og högum ásamt orðsporstjóni sem sé til þess fallið að takmarka starfsmöguleika hans til framtíðar.