Jakob Bjarnar Grétarsson, hinn þekkti blaðamaður Vísis, sakar lækna sem lýstu yfir stuðningi við Skúla Tómas Gunnlaugsson í gær, um skrílmennsku. Ekki þó fyrir að styðja lækninn heldur fyrir ummæli þeirra um fjölmiðla.
Mál Skúla Tómasar hafa verið mikið í fréttum undanfarin misseri. Eftirlifandi ættingjar sex sjúklinga sem létust á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), er Skúli Tómas var þar yfirlæknir, kærðu hann til lögreglu fyrir manndráp, á þeim forsendum að hann hefði sett fólkið í tilefnislausa lífslokameðferð. Skúli Tómas missti lækningaleyfið um tíma eftir áfellisdóm Landlæknis um vinnubrögð hans á HSS en fékk takmarkað læknaleyfi að nýju og hóf störf á Landspítalanum. Þaðan fór hann sjálfviljugur í leyfi en sneri aftur til starfa nýlega, og hefur fengið rýmra lækningaleyfi.
Rannsókn lögreglu á máli Skúla Tómasar er á lokametrunum og verður málið brátt sent til héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákært verður í málinu eða ekki.
Skúli Tómas rauf þögn sína um málið í gær og birti Facebook-pistil þar sem hann staðhæfir að dómskvaddir matsmenn hafi skilað þeirri niðurstöðu að umræddir sjúklingar hafi látist af náttúrulegum orsökum.
Ýmsir þekktir læknar stigu fram í gær til stuðnings Skúla Tómasar og mesta athygli vöktu ummæli Páls Matthíassonar, geðlæknis og fyrrverandi forstjóra Landspítalans. „Sú einhliða umfjöllun sem verið hefur í fjölmiðlum um þetta mál er því fréttafólki sem á bak við stendur til skammar – og Blaðamannafélaginu, þegar til þess er litið að þessi einhliða umfjöllun og meðfylgjandi mannorðsmorð var skreytt verðlaunum!“ sagði Páll meðal annars og vísaði til þess að umfjöllun Stöðvar 2, Vísir og Bylgjunnar um málið fékk blaðamannaverðlaun.
Páll segir ennfremur: „Blasir það ekki við að í svona viðkvæmum málum þá geta þeir heilbrigðisstarfsmenn sem undir ásökun sitja ekki tjáð sig? Væri þá ekki eðlilegra að bíða með umfjöllun -eða í það minnsta ekki nafngreina fólk? Eða er það aflagt að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð? – Þessi heykvíslastemning á torgum ætti að tilheyra myrkri fornöld!“
Jakob Bjarnar bendir á, í skrifum sínum á Facebook um málið, að fjölmiðlar hafi byrjað að fjalla um málið eftir að aðstandendur sjúklinga á HSS stigu fram með ásakanir sínar opinberlega og kærðu. Hann segir:
„Áttu fjölmiðlar að þykjast ekki hafa tekið eftir því? Hverskonar hugmyndir eru það um fjölmiðla að þeirra meginhlutverk sé að reyna að halda upplýsingum frá lesendum, upplýsingar sem að hluta til höfðu komið fram opinberlega? Ef einhverjir eru að rífa upp heygaflana þá eru það Páll og félagar.“
Hann sakar læknana sem stigu fram í gær um skrílmennsku:
„Nú hefur til að mynda ekki hvarflað að mér eina mínútu að þykjast vita eitthvað um þetta mál. En þeir eru þarna í löngum röðum læknarnir að stunda þá skrílmennsku að vilja kenna fjölmiðlum um. Um hvað nákvæmlega liggur ekki fyrir en þetta er samt örugglega þeim að kenna.“
Jakob segir ömurlegt að lesa ummæli læknanna á samfélagsmiðlum um málið í gær:
„Læknar kvarta hástöfum undan skilningsleysi á störfum sínum og stöðu en það vefst ekki fyrir þeim að úthrópa fjölmiðla sem þeir greinilega vita ekkert um. Þeir falla til að mynda í þann fúla pytt að rugla saman meintum viðbrögðum einhverra sem enginn veit hver er og eðlilegum fréttaflutningi um opinbert mál. Eiginlega ömurlegt að lesa þetta.“