Páll Jónsson, 67 ára gamall timbursali með meiru, bar í morgun vitni í sakamáli sem varðar innflutning á tæplega 100 kg af kókaíni. Um er að ræða stærsta kókaínmál Íslandssögunnar.
Dómari í málinu gaf út af fréttaflutningur af vitnaleiðslum sé óheimill þar til þeim er lokið.
Vitnaleiðslur munu standa næstu daga enda er málið gífurlega umfangsmikið og flókið. Sakborningarnir fjórir hafa setið í gæsluvarðhaldi í hálft ár, að miklu leyti í einangrun. Auk sakborninganna fjögurra bera fjölmargir lögreglumenn vitni og um tugur lögreglumanna sitja réttarhöldin í dag. Réttarhöldin standa í allan dag og verður þeim síðan fram haldið á mánudaginn.
Sakborningar auk Páls eru þeir Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson. Fíkniefnin voru flutt í trjádrumbum í gegnum fyrirtæki Páls, Hús og harðviður, frá Brasilíu. Áður en efnin komu til landsins voru þau gerð upptæk af lögreglu í Hollandi og þeim skipt út fyrir gerviefni. Það voru því ekki fíkniefni sem komu með gámi hingað til lands í ágústmánuði 2022 heldur gerviefni, en sakborningarnir og samverkamenn þeirra töldu sig vera að meðhöndla kókaín.
Timbursalinn Páll Jónsson er fæddur árið 1955. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins í um hálft ár, þar af stóran hluta í einangrun. Hinir sakborningarnir í málinu eru miklu yngri, fæddir á árabilinu 1992-1995.
Ljóst er af málavöxtum að aðrir aðilar en þessi fjórir hafa komið að málinu og fjármagnað fíkniefnakaupin, aðilar sem hafa ekki verið ákærðir og líklegt er að þeirra þáttur í málinu fáist ekki sannaður.