Landvernd telur að tveggja stunda rafmagnsleysið á Suðurnesjum í gær veki upp spurningar um getu Landsnets til að sinna hlutverki sínu. Telur Landvernd að fyrirtækið hafi fríað sig ábyrgð með vísun til þess að líklega hefði ekki farið svona illa ef Suðurnesjalína 2 hefði verið reist samkvæmt vilja Landsnets.
Í tilkynningu frá Landvernd segir: „Að rafmagn skulu fara af á hæglætis vetrardegi á svæði með tveimur stórum virkjunum bendir til þess að vandinn sé flóknari en Landsnet lætur í veðri vaka. Er rafmagnsleysið hugsanlega enn eitt dæmið um að forgangsröðun, uppbygging og stýring íslenska raforkukerfisins sé gölluð? Staðreyndin er a.m.k. sú að á Suðurnesjum hafa Landsnet og HS Orka ekki borið gæfu til að byggja kerfið upp á öruggan hátt, hvorki með tilliti til náttúruvár, samfélags né umhverfis.“
Óskiljanlegt sé að virkjanir í Svartsengi og Reykjanesi geti ekki starfað án tengingar við aðra hluta landskerfisins.
„Stærð virkjananna er sannarlega næg til að mæta eftirspurn eftir rafmagni á Suðurnesjum. Skýringin getur ekki verið sú að gufuaflsvirkjanir ráði ekki við framleiðslu og stýringu á raforku án tenginga við vatnsaflsvirkjanir því meginhluti raforkuframleiðslu heimsbyggðarinnar er knúinn sambærilegum gufutúrbínum – og þar er þetta ekki vandamál. En virkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi virðast ekki ráða við að tengingin við landsnetið rofni.
Gufuaflsvirkjanir Landsvirkjunar ráða við „eyjukeyrslu“ án tengingar við landskerfið. Kröfluvirkjun hefur ítrekað séð Norðurlandi fyrir raforku án tengingar við aðra landshluta. Hvers vegna hafa Landsnet og HS orka ekki kippt þessu í lag á Suðurnesjum? “
Landsnet hafi að auki ekki „borið gæfu“ til að tvöfalda raforkutengingar milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur. Enginn hafi sett sig á móti slíkri tvöföldum.
„Megin vandinn í afstöðu Landsnets er þráhyggjukennd andstaða við að leggja jarðstreng í vegöxl Reykjanesbrautar. Landsnet heldur sig alfarið við nýja loftlínu samsíða eldri línu, þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum segi að jarðstrengjaleiðin sé betri kostur.“
Hafi sveitarfélagið Vogar árum saman bent á að farsælast væri að leggja Suðurnesjalínu sem jarðstreng í vegöxl Reykjanesbrautar í staðinn fyrir nýja loftlínu sem sé samsíða línunni sem fyrir er og sé útsett þar af leiðandi fyrir sömu náttúruvá.
„Eldsumbrotin á svæðinu undanfarin ár eru til vitnis um að óskynsamlegt er að tengingar við Suðurnes liggi samsíða.
Í nýlegri greinargerð Dr. Ástu Rutar Hjartardóttur jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands kemur fram að núverandi loftlína sé á „mjög erfiðu svæði innan sigdals Eldvarpa-Svartsengis kerfisins. Komi til eldsumbrota er næsta víst að erfitt verður að verja línuna sökum staðsetningar hennar og afhendingaröryggi mun skerðast.“ Með með tilliti til jarðvár sé því öruggara að leggja jarðstreng meðfram Reykjanesbraut en loftlínu meðfram eldri línu. “