Sigurjón Kjartansson, einn af eigendum framleiðslufyrirtækisins S800 ehf., sem sá um framleiðslu Áramótaskaupsins virðist hafa farið með rangt mál í færslu þar sem hann fór yfir framleiðsluferlið en færslunni var ætlað að kveða þær sögur í kútinn að hann færi með ósannindi í málinu. Talsverður styr hefur stað yfir undanfarna daga vegna sjónvarpsþáttarins vinsæla en framleiðendur hans, þar á meðal Sigurjón, hafa staðið í stappi við leikstjóra þess, Dóru Jóhannsdóttur.
Málið hófst vegna fréttar Stundarinnar í lok nóvember þar sem upplýst var um að Kristján Vilhelmsson, útgerðarmaður hjá Samherja og einn helsti fjárfestirinn á bak við uppbygginguna á nýjum miðbæ Selfoss, ætti stóran hlut í fyrirtækinu. Dóra upplifði pressu um að tökur færu fram á Selfossi og fór í kjölfarið að spyrja erfiðra spurninga Fór hún meðal annars fram á að sjá fjárhagsáætlun verkefnisins, eitthvað sem leikstjórar eru yfirleitt í ráðum með, en kom þar að lokuðum dyrum. Að endingu lokuðu tveir af framleiðendum þáttarins, Hjörtur Grétarsson og Eiður Birgisson, á samskipti við Dóru undir lok ferlisins.
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar var farið ítarlega yfir málið og byggðist umfjöllunin meðal annars á skýrslu Dóru sem hún skilaði til dagskrástjóra RÚV um verkefnið og upplifun sína af því.
„Pressan að fara á Selfoss var mjög mikil frá fyrsta degi. Ekkert var hlustað á síendurteknar óskir leikstjóra um að fara ekki þangað í tökur og finna frekar aðrar lausnir á spítalarými til að missa ekki dýrmætan tökutíma í ferðalög. Af einungis 8 tökudögum eru 2-3 tímar í óþarfa ferðalög mjög dýr,“ sagði meðal annars í bréfi Dóru og kom enn fremur fram að svar starfsmanna framleiðslufyrirtækisins við neitunum hennar um að taka upp á Selfossi, hafi alltaf verið að að slíkt væri eindregin vilji Sigurjóns Kjartanssonar, yfirframleiðanda Skaupsins og helmingseiganda S800, sem framleiddi Skaupið.
Í samtali við Heimildina vísaði Sigurjón því alfarið á bug að pressa hafi verið um að taka upp efni á Selfossi og fór yfir málið frá sínum sjónarhóli.
Þegar umfjöllun Heimildarinnar kom út steig Sigurjón svo fram í færslu á Facebook og vildi leiðrétta nokkur atriði. „Mér er brigslað um að segja ósatt frá í grein sem hinn nýji miðill Heimildin setti frá sér í gær. Það tek ég nærri mér og vil þessvegna leyfa ykkur að fá smá innsýn í þetta mál,“ skrifaði Sigurjón og rakti síðan málið.
Meðal annars vildi hann leiðrétta misskilning, að hans sögn, um ráðningu Dóru sem leikstjóra. „ Önnur fullyrðing í þessari grein sem er ekki sannleikanum samkvæm er sú að leikstjórinn hafi verið ráðinn af RUV. Þannig var það ekki. RUV réð S800 til að framleiða Skaupið. Áður hafði þó átt sér stað samtal milli leikstjórans og dagskrárstjóra RUV um að hún tæki að sér að leikstýra þessu skaupi, en það var engu að síður sameiginleg ákvörðun milli aðila (S800 og RUV) að S800 réði téðan leikstjóra til verksins. Það virðist því sem eini heimildarmaður þessarar staðhæfingar sé leikstjórinn sjálf sem hefur haldið þessum misskilningi fram áður,“ skrifaði Sigurjón.
Í gærkvöldi birti RÚV síðan frétt þar sem málflutningur Sigurjóns var skotinn niður. Sagði Skarphéðinn Guðmundsson , dagskrárstjóri RÚV, segir það alltaf vera í höndum RÚV að velja leikstjóra og yfirhandritshöfund Skaupsins. Það sé alltaf fyrsta skrefið fyrir nýtt Skaup og þegar ráðningin liggi fyrir sé leitað eftir framleiðendum sem vilja framleiða Skaupið undir þessum formerkjum. Samkvæmt Skarphéðni hafi það legið fyrir í lok apríl að Dóra yrði leikstjóri og Saga Garðarsdóttir yfirhandritshöfundur og þá hafi leitin að framleiðenda hafist og hafi endingin verið sú að ráða S800 ehf., hið nýja framleiðslufyrirtæki Sigurjóns, til verksins.
Dóra hefur haldið sig til hlés í umræðunni undanfarna daga en hún brást við frétt RÚV með stuttri yfirlýsingu á Facebook.
„Framleiðendur skaupsins halda áfram að grafa undan málstað sínum með rangfærslum sem RÚV staðfestir loksins hér. Það er vonandi alveg ljóst að söguskýring þeirra Sigurjóns Kjartanssonar, Hjartar Grétarssonar og Eiðs Birgissonar hjá S800 heldur ekki vatni og mörgum spurningum enn ósvarað eins og af hverju mátti leikstjóri ekki sjá budgetið eins og eðlilegt hefði verið? Ég bendi fólki og fjölmiðlum á að vera vakandi fyrir þegar reynt er að sverta mannorð og þagga niður í konum með eitraðri orðræðu, hegðun og gaslýsingum, skrifaði Dóra og vitnaði síðan í orð stórleikkonunnar Natalie Portman.