Um klukkan 9 í morgun var Sigurvin, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Siglufirði, kallað út til að aðstoða vélarvana bát sem var staddur rúmlega 6 sjómílum norðvestur af Siglunesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu.
Klukkan 09:13 í morgun var Sigurvin lagður af stað til að hjálpa bátnum sem var kominn í tog klukkan rétt rúmlega 10. Vel gekk að koma taug yfir í bátinn og draga hann til hafnar en Sigurvin kom með bátinn til hafnar um 11 leitið og var aðgerðum þá lokið. Ekki er vitað hvað það var sem olli vélarbiluninni.
„Þess má geta að Sigurvin er einmitt næsta björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem verður endurnýjað, en von er á nýju björgunarskipi, systurskipi Þórs í Vestmannaeyjum, til Siglufjarðar í vor. Af því tilefni ákvað Fjallabyggð og Rammi hf. að styrkja björgunarbátasjóð Siglufjarðar um 35 milljónir, og var skrifað undir samkomlag þess efnis á föstudag. Fjallabyggð leggur verkefninu til 30 milljónir á næstu 6 árum.“