Í Fréttavaktinni þann 13. janúar er farið yfir helstu fréttir vikunnar, þar á meðal ráðstefnu um hugvíkkandi efni. Litið er við í Borgarleikhúsinu og blaðamaður af Fréttablaðinu ræðir viðtal við Íslending sem bjargaði lífi konu eftir skotárás í Kaupmannahöfn.
Valur Grettisson blaðamaður og fyrrverandi ritstjóri The Reykjavík Grapevine og Karen Kjartansdóttir, ráðgjafi hjá Langbrók mættu í Fréttavakt kvöldsins og fóru yfir þær fréttir sem stóðu upp úr í vikunni. Valur og Karen ræddu við Nínu Richter um nýja nafngift sem fylgdi sameiningu fjölmiðlanna tveggja, Kjarnans og Stundarinnar, breytt fjölmiðlaumhverfi og framtíð prentmiðla. Þá fóru þau yfir jakka samninganefndar Eflingar sem hafa vakið gríðarlega athygli í vikunni. Ráðstefna um hugvíkkandi efni var einnig til umræðu.
Margrét Erla Maack fór á stúfana og ræddi við aðstandendur sýningarinnar Hvíta tígrisdýrsins sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.
Birna Dröfn Jónasdóttir ræddi efni helgarblaðsins, þar á meðal forsíðuviðtal við Snorra Þrastarson, Íslending sem bjargaði lífi konu og skýldi hópi fólks eftir skotárás í verslunarmiðstöð í Danmörku síðasta sumar.