Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður Fréttablaðsins og stjórnandi Íþróttavikunnar með Benna Bó á Hringbraut, sendir Atla Fannari Bjarkasyni, samfélagsmiðlastjóra RÚV, væna pillu í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í morgun.
Atli Fannar var á dögunum gestur í hlaðvarpinu Dr. Football en þar furðaði hann sig á lítilli viðveru Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) á samfélagsmiðlum. „Samfélagsmiðlastjóri RÚV, Atli Fannar Bjarkason, fór mikinn í Dr. Football þar sem hann fann HSÍ nánast allt til foráttu varðandi samfélagsmiðlakunnáttu sam- bandsins. Skildi til dæmis ekki af hverju HSÍ væri ekki að græða peninga á samfélagsmiðlum,“ segir Benedikt í upphafi pistilsins.
„Atli sagði í þættinum frá sínum eigin verkum á RÚV og hvað RÚV væri frábært á öllum samfélagsmiðlum. Galdurinn, samkvæmt Atla, við að vera frábær á samfélagsmiðlum er að taka það sem er gott á dagskrá RÚV og setja á samfélagsmiðla. Það væru nú allir töfrarnir. Hvort sem það væru hlutar af Áramótaskaupinu, eða uppistandi Sóla Hólm og horfa á lækin hrúgast inn.“
Benedikt bendir á að RÚV sé með gífurlegt forskot þegar kemur að verkefnum eins og að birta efni á samfélagsmiðlum. „Eins og RÚV-urum er tamt er lítill skilningur á öðru umhverfi en að fá gefins milljarða,“ segir hann.
„Ef HSÍ fengi sömu milljarða gefins á ári og RÚV væri pottþétt samfélagsmiðlastjóri innan HSÍ. Það væri jafnvel hægt að ráða heila deild og sérstakan starfsmann til að sinna TikTok eins og á RÚV. HSÍ fær því miður ekki alla þessa milljarða og getur því ekki verið að klippa efni í eina klippu á samfélagsmiðlum. Það að hlusta á RÚV-ara með sína áhyggjulausu milljarða í vasanum gera grín að hvað HSÍ sé lélegt á samfélagsmiðlum er sönnun þess að ríkismiðillinn er á villigötum.“
Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþróttadeildar Torgs, deildi pistlinum á Twitter-síðu sinni en athygli vekur að Björgvin Páll Gústavsson er á meðal þeirra sem setja hjarta við færsluna. Arnar Daði Arnarsson, einn helsti handboltasérfræðingur landsins, gerir svo gott um betur en auk þess að setja hjarta við færsluna skrifar hann eftirfarandi í athugasemd við hana: „Amen. Ég hlustaði og hafði gaman að. Frábærar pælingar. Hinzvegar pælingar sem eru fjærri raunveruleikanum og það sem hægt er að ætlast að litlum sérsamböndum.“
Þá vekur Arnar athygli á því að fyrsti leikurinn á HM í handbolta hafi ekki verið sýndur á sjónarpsrásum RÚV í beinni útsendingu. Þess í stað var hann einungis aðgengilegur á ruv.is. „RÚV-arar ættu að einbeita sér aðeins að horfa inná við. Opnunarleikur HM var sýndur á vafranum. Skandall. Besta sætið.“
Benedikt Bóas beittur í Fréttablaði dagsins pic.twitter.com/CEXOtn0V0q
— Hörður S Jónsson (@hoddi23) January 12, 2023