Skilaboðaspjall á Facebook messenger var meðal helstu gagna í dómsmáli þar sem fyrrverandi launþegi krafði fyrrverandi vinnuveitanda sinn um laun og orlof, rúmlega 730 þúsund krónur. Dómur var kveðinn upp í þessu máli í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. desember en birtur í dag á vefsíðu dómstólanna.
Stefnandi er kona sem var í hlutastarfi hjá hinni stefndu, annarri konu, en engar persónupplýsingar eru gefnar upp í dómnum né nafn fyrirtækis eða upplýsingar um starfsgrein. Ekki var gerður við hana skriflegur ráðningarsamningur. Föstudaginn 11. desember árið 2020 sendi konan þessi skilaboð til vinnuveitandans:
„Fyrirgefið stuttan fyrirvara, en ég þarf að vera í fríi fram yfir áramót.“
Vinnuveitandinn svaraði þessum skilaboðum svo (ath. samskipti eru nafnhreinsuð): „Hæ A mín, við verðum að hittast og fara yfir málin. Kv. D.“
Að kvöldi sama dags sendi D stefnanda svohljóðandi skilaboð á messenger: „Elsku A vonandi er allt í lagi hjá þér en mér finnst ég megi vita hvað er að?“
Daginn eftir áttu konurnar nokkurra mínútna símtal en þann 19. desember 2020 vinnuveitandinn C (eiginmaður D) þessi skilaboð til konunnar:
„Sæl A, Mig langar að skora á þig að mæta í vinnu hérna á mánudaginn, 21. des., eða láta mig vita af hverju þú getur ekki eða villt ekki mæta til vinnu. Annars verð ég því miður að líta svo á að samstarfi okkar sé lokið og að þú sért hætt að vinna í B. Kær kveðja, C.“
Kl. 16:24 sama dag sendi C eftirfarandi skilaboð á starfskonuna: „Viltu lesa mailið frá mér sem ég var að senda þér. Heyrumst. C.“
Á Þorláksmessu sendi starfskonan þessi skilaboð á vinnuveitandann (eiginkonu C):
„Elsku D, mig langaði bara til að segja gleðileg jól við þig, ég veit að þú ert örugglega á haus við undirbúning, ég bjalla á þig milli jóla- og nýárs.“
Þessum skilaboðum svaraði D á sama vettvangi, kl. 17:40 sama dag: „Elsku A mín mér þykir undirvænt um þig. Reyndu að njóta jólanna og verðum í bandi milli jóla
og nýár.“
Samskipti aðilanna eru rakin nokkuð ítarlegar en hér gefur að líta, sjá texta dómsins. En þann 26. febrúar 2021 sendi konan sínum fyrri vinnuveitendu læknisvottorð þar sem kveðið var á um að hún væri með öllu óvinnufær vegna sjúkdóms.
Fyrir dómi var tekist á um hvort konan hefði uppfyllt tilkynningaskyldu um veikindi. Konan byggði kröfu sína á því að hún hefið áunnið sér tveggja mánaða veikindarétt og ætti rétt til launa frá 11. des. 2020 til 11. febrúar 2021. Miðuðust kröfur hennar við meðallaun hennar hjá fyrirtækinu mánuðina á undan.
Það var niðurstaða dómsins að konan hefði ekki fært sönnur á að hún hefði uppfyllt tilkynningaskyldu um veikindi og voru vinnuveitendurnir fyrrverandi sýknaðir. Málskostnaður var felldur niður.