Eins og fleiri Íslendingar er Egill Helgason, fjölmiðlamaður og samfélagsrýnir, afar hrifinn af mandarínunum og telur þær ómissandi yfir jólin. Hann segir að þessi jól hafi gæði ávaxtanna valdið honum miklum vonbrigðum.
„Mandarínukvabb. Ég get ekki hugsað mér jól án þess séu mandarínur. Finnst þær góðar og ómissandi. Kaupi mikið af þeim. Þessi jól hefur borið svo við að ég hef ekki fengið einn einasta mandarínukassa án þess að hann væri ónýtur. Ávextirnir bragðvondir, þurrir, trénaðir eða þá alltof linir. Eru svo farnir að rotna stuttu eftir að þeir koma úr búðinni. Þetta eru vonbrigði,“ skrifar Egill á Facebook-síðu sinni.
Greinilegt er að margir hafa upplifað sömu vonbrigði og Egill með ávextina.
„Sammála. Mikið um skemmdar eða sem skemmast fljótlega. Datt aldrei um safaríkar og góðar mandarínur þessi jólin og þá vantar mikið,“ skrifaði Framsóknarmaðurinn Birkir Jón Jónsson og greina margir aðrir frá því að þeir hafi hreinlega hent heilu kössunum af mandarínum þessi jólin.