Mikill viðbúnaður var við bandaríska sendiráðið í dag vegna dularfullrar sendingar sem barst sendiráðinu. Ákveðið var að kalla til lögreglu og var sérsveit ríkislögreglustjóra og slökkvilið kallað til vegna sendingarinnar. Þá var Engjavegi lokað meðan aðgerðin stóð yfir og starfsfólk sendiráðsins beðið um að halda sig til hlés en talið var óþarfi að rýma sendiráðið.
Lögregla sendi frá sér fréttatilkynningu rétt í þessu þar sem fram kom að starfsfólk sem handlék sendinguna hafi verið flutt á sjúkrahús til skoðunar í öryggisskyni. Ekki kemur þó fram hvers eðlis hin dularfulla sending var en innihaldið verður sent til rannsóknar. Fréttastofa RÚV hefur samkvæmt heimildum að einhverskonar duft hafi verið í sendingunni.
Farið var eftir sérstöku verklagi og sendingin fjarlægð en sjá mátti slökkviliðsmenn í hlífðarbúningum að störfum við sendiráðið. Störfum lauk síðan við sendiráðið eftir tæpa tveggja tíma aðgerð.