Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins í handbolta, er allt annað en sáttur með reglur IHF, alþjóðlega handboltasambandsins, er varða Covid-19 á HM í handbolta sem hefst þann 12. janúar næstkomandi. Reglurnar eru að leikmenn þurfa að fara reglulega í skimun, fyrir mótið, áður en milliriðill hefst og fyrir átta liða úrslit. Ef smit greinist þurfa leikmenn að fara í einangrun í 5 daga en þeir mega ekki keppa fyrr en þeir fá neikvæða niðurstöðu.
Í morgun birti Björgvin Páll bréf, sem stílað er á IHF, á samfélagsmiðlinum Twitter. Í bréfinu lýsir markvörðurinn óánægju sinni með Covid-19 reglurnar en hann segist hafa, ásamt öðrum leikmönnum, hafa haft samband við lögfræðinga vegna þeirra.
„Ég, ásamt öðrum handboltaleikmönnum, hef haft samband við lögfræðinga vegna mögulegrar einangrunar á HM í handbolta,“ segir Björgvin Páll í upphafi bréfsins. Hann gefur til kynna að reglurnar brjóti mögulega á mannréttindum, til dæmis er varða frelsi til vinnu. Til að mynda sé hægt að færa rök fyrir því að það að neita þeim um aðgang að mótinu brjóti sáttmálann þar sem reglurnar varðandi veiruna eru slakari í löndunum heldur en á mótinu.
Björgvin Páll segir að möguleiki verði á því að leikmenn eigi eftir að leita réttar síns fyrir dómstólum ef þeir verða settir í einangrun á mótinu.
„Reglurnar á mótinu eru strangari en reglurnar sem eru í löndunum og það eru skipuleggjendurnir sem setja þessar reglur. Leikmennirnir eru meðvitaðir um þá staðreynd að þeir geta hvenær sem er farið úr einangrun eða neitað að fara í skimun.“
Undir lokin segir markvörðurinn að leikmenn séu enn að ná sér eftir áföll sem fylgdu Covid-19 á síðasta stórmóti en fjöldi leikmanna missti af leikjum vegna smits, jafnvel þrátt fyrir að engin einkenni væru til staðar. Björgvin Páll var til að mynda í hópi þeirra sem greindust með smit á EM í fyrra en hann greindist meira að segja aftur eftir að hafa losnað úr upphaflegu einangruninni. Þurfti hann því að fara tvisvar í einangrun á mótinu.
Hægt er að sjá færsluna og bréfið í heild sinni hér fyrir neðan:
I want to thank everyone for the support regarding my last tweet about the covid 19 restrictions in the next Handball WC! 🙏 I just now sent IHF this letter here below. All retweets, especially if you are a player taking part in tournament, are well appreciated! Stay tuned… 🤾♂️ pic.twitter.com/4djBw1VR6W
— Björgvin Páll Gústavsson (@BjoggiGustavs) January 4, 2023