Í næstu viku verður flautað til leiks á heimsmeistaramótinu í handbolta sem haldið verður í Svíþjóð og Póllandi. Miklar væntingar eru gerðar til íslenska liðsins að þessu sinni, annars vegar vegna góðs árangurs á EM í fyrra, þar sem Ísland endaði í 6. sæti þrátt fyrir gífurlegt brottfall lykilmanna vegna Covid-smita, hins vegar vegna þess hvað íslenski leikmannahópurinn er breiður og sterkur núna. Margir af lykilmönnum liðsins hafa verið að standa sig frábærlega undanfarið með sínum félagsliðum, í sterkum deildum í Evrópu.
En eins og allir vita er ekkert gefið í íþróttum og landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson gefur lítið fyrir heillaspár íslenska liðinu til handa. Hann sér fyrir sér erfitt mót og bendir á að Íslendingar séu í afar sterkum riðli á mótinu.
Við skulum líta á riðilinn, dagskrá íslenska liðsins og keppnisfyrirkomulagið:
Ísland er í D-riðli með Portúgal, Ungverjalandi og S-Kóreu. Fyrsti leikur okkar manna á mótinu er gegn Portúgal, fimmtudaginn 12. janúar, kl. 19:20. Laugardagskvöldið 14. janúar mætum við Ungverjalandi og síðan verður keppt gegn S-Kóreu þann 16. janúar. Öll liðin þrjú eru sterk og hafa oft lagt Ísland að velli í gegnum tíðina.
Þrjú efstu liðin í riðlinum komast áfram í milliðriðil og taka með sér stigin úr leikjum gegn þeim liðum sem einnig fara áfram. Í milliriðli mætir Ísland þremur af fjórum liðum úr C-riðli. Þessi lið eru Svíþjóð, Brasilía, Grænhöfðaeyjar og Úrúgvæ.
Ef Ísland nær einu af fjórum efstu sætunum í milliriðlinum þá kemst liðið í 8-liða úrslit en þá tekur við útsláttarfyrirkomulag.
Það er því torsótt leið framundan að þeim árangri sem margir láta sig dreyma um núna fyrir hönd landsliðsins. Meðfylgjandi myndir eru frá æfingu landsliðsins í Fram-heimilinu í Safamýri. Um næstu helgi leikur liðið tvo leiki gegn Þýskalandi í undirbúningi fyrir mótið, en eins og fyrr segir er fyrsti leikur okkar á mótinu gegn Portúgal á fimmtudagskvöldið í næstu viku.