fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Margir minnast Svavars Péturs – „Ég dáðist að því hversu opinskár hann var með veikindi sín,“ segir Lilja Alfreðsdóttir

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 29. september 2022 21:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svavar Pétur Eysteinsson, tónlistarmaður, sem var þekktur undir nafninu Prins Póló, er látinn, 45 ára að aldri. Prins Póló markaði djúp spor í tónlistarsöguna og naut bæði virðingar og vinsælda fyrir frjóa tónlist sína og frábæra lagatexta. Undanfarin fjögur ár barðist hann við krabbamein.

Margir minnast tónlistarmannsins með harmi og meðal þeirra er Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og menntamálaráðherra. Lilja lofar Svavar fyrir einlægni hans í umfjöllun um baráttuna við veikindin:

„Það er virkilega dapurlegt að heyra af fráfalli Svavars Péturs Eysteinssonar, tónlistarmanni, grafískum hönnuði og frumkvöðli. Svavar ólst upp í Breiðholtinu en flutti síðar austur á land með fjölskyldu sinni þar sem hann rak ferðaþjónustufyrirtæki og var frumkvöðull á sviði matvælaframleiðslu.

Svavar kom fram undir listamannanafninu Prins Póló og skilur eftir sig ógleymanlega slagara í tónlist og veggspjöld með lagatextum hans hafa notið mikilla vinsælda. París norðursins er eitt af mínum allra uppáhaldslögum.

Ég dáðist að því hversu opinskár hann var með veikindi sín undanfarin ár. Þrátt fyrir þau hélt hann áfram að sinna listinni, koma fram og vera okkur öllum innblástur til góðra verka.

Það er sárt að sjá á eftir Svavari kveðja í blóma lífsins, aðeins 45 ára að aldri. Ég sendi Berglindi Häsler, börnum þeirra þremur Hrólfi Stein, Al­dísi Rúnu og Elísu, fjölskyldu og vinum innilegar samúðarkveðjur.“

Fjölmiðlamaðurinn og skemmtikrafturinn Sóli Hólm segist hafa kunnað frábærlega vel við Svavar:

„Prinsinn hefur kvatt okkur!

Ég kynntist Svavari fyrst þegar við unnum saman í nokkra mánuði árið 2004 hjá útgáfufyrirtækinu sáluga 2112. Ég rúmlega tvítugur og stefnulaus en hann fjölskyldumaður á Volvo, þá í vinnu sem grafískur hönnuður samhliða tónlistinni og annarri listsköpun.

Auðvitað kunni ég strax frábærlega við hann.

Í gegnum árin hittumst við óreglulega á förnum vegi en trúlega aldrei oftar en meðan ég vann á Rás 2 hvar hann rak reglulega inn nefið ásamt fríðu föruneyti. Alltaf jafn hlýr og skemmtilegur.

Verum þakklàt Prinsinum fyrir að skilja eftir sig svo mikið af frábærri list og fyrir að vera magnaður á allan hátt.

Ég sendi mínar hlýjustu samúðarkveðjur til Berglindar, fjölskyldu og allra vina Prinsins — þeir eru margir!“

Frosti Logason fjölmiðlamaður segir að Svavar hafi verið fjölhæfur listamaður og „einstaklega almennileg manneskja“. Frosti segir ennfremur:

„Hans verður saknað sárt en verkin hans munu lifa áfram með okkur og næstu kynslóðum. Ég votta fjölskyldu hans og vinum mínar dýpstu samúðarkveðjur. Far vel minn kæri Prins.“

Guðmundur Jörundsson hönnuður segir að ákveðið textabrot fangi snilld Svavars:

„“Því ég finn á mér

Að þú viljir vera hjá mér

Þó ég sé algjört fífl

Þegar ég finn á mér”

Textabrot sem fangar vel hversu mikill ofsafenginn snillingur Svavar Pétur var þegar kom að textasmíð.“

Margir lýsa yfir þungum harmi yfir fráfalli tónlistarmannsins og allir sem tjá sig minnast hans með mikilli hlýju. „Takk fyrir gjafir þínar, fallegi Prins,“ segir borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“