fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Undrabörnin áttu sviðið á Ólympíuskákmótinu – Heimsmeistarinn Magnus Carlsen gat ekki bjargað Norðmönnum frá ótrúlegum hörmungum

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 9. ágúst 2022 13:44

Undrabörnin D. Gukesh og N. Abdusattorov mætast. Skákin reyndist vera sú örlagaríkasta í Ólympíumótinu öllu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lokaumferð Ólympíumótsins í skák í Chennai í Indlandi lauk nú fyrir stundu og má með sanni segja að úrslitin þyki tíðindum sæta.  Það var landslið Úsbekistan sem hafði sigur í mótinu en fyrirfram var liðið talið hið fjórtánda sterkasta á pappírunum.  Liðið er skipað ungum og efnilegum skákmönnum en þar fer fremstur í flokki hinn 18 ára gamli Nodirbek Abdusattorov sem er óðum að skipa sér í hóp sterkustu skákmanna heims. Aðrir liðsmenn Úsbekistan eru fæddir á árunum 2002-2005 ef undan er skilinn „öldungurinn“ Jakhongir Vakhidov sem er fæddur árið 1995 og er því 27 ára gamall. Vakhidov reyndist hetjan í úrslitaviðureigninni gegn Hollendingum en hann vann sína skák og tryggði þar með Úsbekkum sigur í viðureigninni, 2,5 -1,5, og þar með Ólympíugullið.

Niðurstaðan er mikill sigur fyrir þjálfara Úsbeka, Íslandsvininn og stórmeistarann Ivan Sokolov, sem hafði lagt mikið á sig við undirbúning liðsins og uppskar ríkulega. Kappinn var eðli málsins samkvæmt ansi sáttur í mótslok.

Misstu sinn besta mann en það skipti engu

Í öðru sæti varð ólseigt lið Armena sem einnig stóð sig mun betur en stigin gerðu ráð fyrir.  Árangur þeirra kom í raun öllum skákáhugamönnum í opna skjöldu þvi að nýlega yfirgaf langbesti skákmaður Armena, Levon Aronian, landsliðið. Hann flutti vestur um haf og teflir nú fyrir ofursveit Bandaríkjanna. Þrátt fyrir þessa blóðtöku bitu Armenar í skjaldarrendur og pökkuðu meðal annars Bandaríkjamönnum saman í innbyrðis viðureign þjóðanna. Þar hafði tryggð og föðurlandsást sigur gegn miskunarlausum peningaöflunum. Vakti athygli, en samt kannski ekki, að Aronian ákvað að sitja á hliðarlínunni frekar en að berjast gegn fulltrúum fósturjarðarinnar.

Í þriðja sæti varð svo b-sveit Indverja sem vann hug og hjörtu flestra sem fylgdust með mótinu. B-sveitin var líkt og Úsbekarnir skipuð ungum og efnilegum skákmönnum nema bara enn yngri – fæddir á árunum 2004 – 2006. Sveitin vó það þó upp með því að hafa á að skipa einum „öldungi“ – hinum þrítuga stórmeistara Adhiban. Sveitina leiddi ofurdrengurinn D. Gukesh, sem er aðeins 17 ára gamall, en gerði sér lítið fyrir og vann átta fyrstu skákirnar sínar í mótinu og gjörsamlega sló í gegn. Hann gerði svo jafntefli í níundu skákinni en varð svo fyrir átakanlegri reynslu í næstsíðustu umferð mótsins. Þá mættu indversku ungliðarnir liði Úsbeka og stefndi lengi vel í sigur heimamanna. Munaði þar mest um að Gukesh virtist vera að pakka ofurstórmeistaranum Abdusattorov saman á fyrsta borði en ekki er ólíklegt að þessir tveir verði í baráttunni um heimsmeistaratitilinn í framtíðinni. Smátt og smátt fór hins vegar skákin að fjara út í jafntefli en Gukesh hélt áfram að pressa og endaði með því að leika af sér og tapa skákinni. Segja má að þessi skák hafi verið sú örlagaríkasta í mótinu því jafntefli hefði líklega gert það að verkum að Indverjarnir ungu hefðu landað gullinu.

Í fjórða sæti varð síðan A-sveit Indverja sem er til marks um hversu rosalegt stórveldi Indverjar eru að verða í skákinni.

Hörmungar heimsmeistara og kapítalista

Mesta athygli í mótinu vakti í raun að Bandaríkjamenn skildu ekki enda á palli og síðan hörmungar Norðmanna. Bandaríkin voru fyrirfram langsterkasta sveitin á pappírunum góðu en það dugði ekki til. Fáir skákáhugamenn héldu með Ameríkönum enda hafa þeir verið duglegir að sanka að sér sterkustu skákmönnunum annarra þjóða. Þannig flutti Filippseyingurinn So sig yfir fyrir nokkrum árum sem og Kúbverjinn Lenier Dominguez og Armeninn Aronian eins og áður segir. Sveitin var í toppbaráttunni allan tímann en gaf eftir undir lokin.

Ótrúlegt atvik, sem skipti sköpum í mótinu, átti sér stað undir lok mótsins í viðureign Bandaríkjamanna gegn Armenunum. Staðan var 2-1 fyrir Ameríkönunum en á fjórða borði hafði stórmeistarinn Sam Shankland verið í nauðvörn í fleirri klukkustundir gegn kollega sínum Robert Hovhannisyan. Á ögurstundu lék Robert drottningarleik og Sam svaraði því til með að grípa samstundis í kónginn sinn (þessi setning gæti misskilist). Skyndilega þyrmdi yfir Shankland þegar hann áttaði sig á því að Robert hafði leikið leik sem hann bjóst ekki við og þar með væri kóngsleikur dauðadómur. Allt í einu kom hinn gamalkunna byrjendaregla til skjalanna – snertur maður hreyfður maður – og því varð Shankland að gefast upp og Armenar jöfnuðu metin. Ef Bandaríkjamenn hefðu haft sigur í þessari viðureign má vel vera að þeir hefðu klárað mótið en þess í stað lentu þeir í 5. sæti.

Hér má sjá myndband af þessu ótrúlega atviki

Enn verri voru þó hörmungar Norðmanna. Fráfarandi heimsmeistari og mögulega sterkasti skákmaður allra tíma, Magnus Carlsen, mætti til leiks í Chennai og leiddi lið frænda okkar ásamt ungum og öflugum norskum kollegum sínum. Liðið var hið þriðja í styrkleikaröðinni en gekk afleitlega. Það var þó ekki við ofurmennið Carlsen að sakast sem fékk 7,5 vinninga af 9 mögulegum og tapaði ekki skák. Samherjar hans skitu hins vegar hressilega upp á bak (mögulega í allt að því bókstaflegri merkingu) og klúðruðu hverri skákinni á fætur annarri. Að lokum endaði liðið í 59. sæti sem er fáheyrt klúður hjá einu af sigurstranglegustu liðunum.

Magnus Carlsen mátti horfa upp á ólýsanlegar hörmungar samherja sinna á ÓL

Næstefstir Norðurlandaþjóða

Gengi íslenska liðsins í opna flokknum var á pari. Liðið vann sigur gegn öllum lakari andstæðingum en tapaði gegn sterkari liðum. Það munaði stundum litlu að liðið myndi ná punktum gegn sterkari sveitunum sem hefði mögulega getað snúið gengi liðsins við. Í síðustu umferð vann liðið baráttusigur gegn Búlgörum, sem höfðu komið á óvart í mótinu hingað til, og þar reyndist róbotinn og reynsluboltinn Hannes Hlífar Stefánsson hetjan með því að kreista út sigur þegar staðan var 1,5 – 1,5. Liðið var hið 43. í styrkleikaröðinni en endaði í 40. sæti.

Það var óvænt ánægja að vera fyrir ofan Norðmenn en því miður skutust Svíar upp fyrir íslenska liðið í lokin. Þar með urðu Íslendingar í öðru sæti í hinu óopinbera Norðurlandamóti á Ólympíuskákmótinu.

Hér má sjá úrslit íslenska liðsins í öllum umferðum og árangur einstakra liðsmanna.

Heimakonur klúðruðu mótinu í lokin

Í kvennaflokki mótsins var sterkt lið Indverja með tögl og haldir allt mótið. Heimakonur voru í forystu fyrir síðustu umferð og höfðu náð að halda velli gegn helstu samkeppnislöndunum. Í síðustu umferð brustu hins vegar taugar liðsins og þær töpuðu 3-1 gegn liði Bandaríkjanna sem hafði ekki átt neitt sérstakt mót. Úrslitin gerðu það að verkum að lið Úkraínu og Georgíu skutust upp fyrir heimakonur og eftir stigaútreikning voru það Úkraínukonur sem lönduðu gullinu. Slava ukraini!

Íslenska kvennalandsliðið náði sér aldrei almennilega á strik í mótinu. Liðið tapaði gegn öllum sterkari andstæðingum sem og einnig nokkrum viðureignum gekk veikari liðum. Að endingu endaði liðið í 79. sæti en var í 61. sæti miðað við styrkleikaröðun í byrjun móts.

Hér má sjá úrslit íslenska lkvennaiðsins í öllum umferðum og árangur einstakra liðsmanna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu