fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Ósáttar við vinnubrögð MAST eftir tilkynningu um mögulegt dýraníð – Maður dregur dalmatíu-hvolp með valdi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 5. ágúst 2022 10:00

Dalmatíu-hundur. Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórar konur hafa tilkynnt dýraníð til MAST vegna meðferðar á hundi sem þær telja óásættanlega. Málið, sem er viðkvæmt, meðal annars vegna nábýlis sumra kvennanna við eiganda hundsins, á sér stað í bæjarfélagi nálægt höfuðborgarsvæðinu en ekki er hægt að tilgreina það nánar. Um er að ræða hvolp, 7 mánaða gamla dalmatíu-tík.

Konurnar höfðu fyrst samband við dýralækni sem hvatti þær til að tilkynna málið til MAST en sagðist ekki geta haft afskipti af því. Þær tilkynntu málið einnig til ræktanda hundsins og til lögreglu en án þess að fá viðbrögð. Í kæru sinni til MAST sendu konurnar meðal annars mörg myndbönd sem sýna manninn draga hvolpinn nokkuð harkalega í hálsól. DV hefur skoðað myndböndin en nokkuð skiptar skoðanir eru um innihald þeirra meðal þeirra sem hafa skoðað þau. Bent er á að dalmatíuhvolpar séu gjarnan tregir í taumi en ein konan bendir á að dýrið vilji greinilega ekki ganga með manninum og sé hrætt við hann. Segir hún allar götur frá því í apríl síðastliðnum hafa haft miklar áhyggjur af meðferð mannsins á hvolpinum sem augljóslega líði illa hjá honum.

Konurnar eru afar óánægðar með viðbrögð MAST í málinu sem hafi annars vegar gefið manninum tækifæri til að búa sig vel undir eftirlitsheimsókn frá fulltrúa MAST og hins vegar sýnt honum myndböndin sem konurnar tóku upp af honum og hundinum, en sjónarhorn myndatökunnar og staðsetning atvikanna gefi manninum sterka vísbendingu um hver hafi tekið upp myndböndin og kært hann.

Þetta varð til þess að maðurinn bankaði upp hjá einni nágrannakonu sinni, sem í hlut átti, og sagðist ekki vera að meiða hundinn sinn.

„Hvers konar vinnubrögð eru þetta hjá MAST, að tilkynna komu sína til mannsins með margra daga fyrirvara og sýna honum síðan myndböndin sem voru tekin upp!“ segir ein konan í samtali við DV.

Hún segist jafnframt hafa orðið vitni að meira og öðru ofbeldi mannsins í garð tíkarinnar en því sem sjáist á myndböndunum. „Ég hef séð hann sýna henni ofbeldi sem ég hef átt bágt með að horfa upp á.“

Bendir hún að að maðurinn hafi fengið tækifæri til að láta allt líta vel út hjá sér þegar hann var heimsóttur, hann gat búið sig undir heimsóknina.

DV sendi fyrirspurn til MAST vegna málsins og óskaði eftir svörum almenns eðlis. MAST svaraði fyrirspurninni samdægurs. Í svarinu segir að kærendur geti notið nafnleyndar ef þeir óski þess. Ennfremur segir að gripið sé til fyrirvaralausra heimsókna til dýraeigenda ef tilefni telst til. Svarið er eftirfarandi:

„Til okkar berast fjölmargar ábendingar. Við sinnum þeim öllum en forgangsröðun getur átt sér stað.

Hvað trúnað tilkynnanda varðar getur hann óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða Lögreglu. Almennt höldum við þessa reglu, þ.e. gefum ekki upp þá sem tilkynna. Í mörgum ábendingum fylgja með gögn, svo sem myndbönd eða myndir, sem oft á tíðum geta verið mjög gagnleg þegar ábendingar eru rannsakaðar.

Margar ábendingar koma til okkar nafnlausar en þær eru rannsakaðar sömuleiðis ef upplýsingar eru nægar.

Hvað fyrirvaralausar heimsóknir varðar eiga þær sér stað þegar ábendingarnar eru þess eðlis. Ef heimsókn er boðuð er það gert þegar hún skemmir ekki fyrir rannsókn málsins – t.d. þegar brot á lögum um velferð dýra þykir augljóst, t.d. með skoðun á myndbandi.

Hjá stofnunni starfa reyndir dýraeftirlitsmenn og eftirlitsdýralæknar. Þeir meta ávallt hvort ábending eigi við rök að styðjast. Sé það tilfellið, að ábending sé á rökum reist, bregst stofnunin við skv. heimildum í lögum um velferð dýra.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala