fbpx
Þriðjudagur 16.ágúst 2022
Fréttir

Val hótað málsókn vegna neikvæðrar umsagnar um hótel í Róm – Svítan reyndist vera þröng herbergiskompa og enginn matur í boði

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 2. ágúst 2022 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valur Arnarson, verkfræðingur og tónlistarmaður, ákvað að gera vel við sjálfan sig og sína heittelskuðu eiginkonu á 12 ára brúðkaupsafmælinu þeirra og bauð henni til Rómar. Hann velti fyrir sér hvaða hótel hæfði tilefni sem þessu.

„Maður vildi aðeins leggja í þetta. Ég er ekki vanur þessu Booking.com dóti þannig að ég var að þvælast fram og til baka á netinu, vildi ekki fara í eitthvað alveg fokdýrt, en ég sá þetta hótel þar sem myndirnar lofuðu sannarlega góðu, maður fer svolítið eftir því og er ekki útfarinn í öllum smáatriðunum í lýsingunum. Þetta var auk þess merkt sem fjögurra stjörnu hótel á booking.com. En svo um leið og ég var búinn að bóka þá dettur ein stjarna út, sem var ansi skítt.“

Svo virtist sem þetta væri lúxus-svíta sem Valur hafði pantað enda heitir hótelið Spagna Boutique Luxury Suites. Af myndum af dæma eru herbergi í þeim flokki sem Valur pantaði rúmgóð, það eru svalir út frá þeim og girnilegan morgunverð er hægt að fá í rúmið. Verðið var hagstætt eða andvirði rúmlega 200 þúsund króna fyrir níu nætur.

„Morgunverður var ekki innifalinn í verðinu en ég hugsaði með mér að ég gæti bara keypt hann,“ segir Valur en það kom á daginn að það var ekki hægt að fá neinn morgunverð né nokkuð matarkyns á staðnum.

Þessi girnilegi morgunverður var aldrei í boði. Raunar var ekkert matarkyns á hótelinu. Valur hafði einmitt hugsað með sér að það væri gaman að panta þennan bakka inn á herbergi að morgni brúðkaupsafmælisdagsins.

„Þetta var engin svíta heldur bara mjög venjulegt og mjög lítið herbergi þar sem þröngt var til allra veggja. Það komst lítið annað fyrir þarna nema rúmið, þarna var einn stóll og borð og það var mjög þröng um það, það var varla pláss fyrir okkur bæði að sitja þarna. Samt átti þetta að vera superior room en það var líka hægt að panta standard room. Ég fer fram og spyr hann út í þetta en þá byrjar hann með leikaraskap, hann kunni svo litla ensku og skilji ekki.“

Valur varð ekki var við neinn matsal á staðnum og spurði hótelstjórann út í matinn. „Þá lét hann okkur bara hafa einhver spjöld fyrir veitingastað sem vinur hans rekur. Það var engin matsala á hótelinu. Þetta var í rauninni ekkert hótel heldur bara staður þar sem hægt var að fleygja sér og sofa. Þetta var samt auglýst sem hótel og í rauninni var það mjög kómískt þegar maður hugsar út í það.“

 

Svo virtist sem svalir væru við herbergið. Þar var hins vegar bara gluggi sem vísaði út í sóðalega götu.

Loftkælingin bilaði og vinnusími hótelstjórans vakti þau

Valur hitti ekki annað starfsfólk en þennan mann fyrir utan ræstingafólk en staðurinn var hreinn. Það virðist það eina jákvæða sem hægt var að segja um hann. Um var að ræða eina hæð í húsi þar sem önnur hótel voru rekin á öðrum hæðum. Valur segir að skrifstofa hótelstjórans hafi verið við hliðina á herberginu sem honum og eiginkonu hans var úthlutað. Ef þau dvöldust einhvern tíma í herberginu að degi til var töluvert ónæði frá skrifstofunni en á kvöldin og jafnvel um nætur hringdi síminn inni á skrifstofunni hans og þau vöknuðu jafnvel upp við það.

Auk þess var loftkælingin að hiksta og eina nóttina bilaði hún. „Við vorum bara í svitapolli,“ segir Valur sem þrátt fyrir þessi vonbrigði lagði áherslu á að njóta ferðarinnar. Þegar heim var komið skrifaði hann neikvæða umsögn um hótelið en hugðist ekki aðhafast neitt frekar:

 

Hótað lögsókn vegna umsagnarinnar

„Ég hélt að málinu væri lokið en þá fer ég að fá skilaboð frá honum þar sem hann er að biðja mig um að breyta umsögninni á booking.com. Hann sagðist ekki hafa skynjað að ég væri neitt reiður. Það var líka ekkert skrýtið því við höfðum varla haft nein samskipti nema út af biluðu loftkælingunni. Hann fer að suða í mér, hann sagði að rýnin væri mjög ósanngjörn og hann væri mjög sár yfir henni.“

Maðurinn margbað Val um að breyta umsögninni og Valur sagðist til í það ef hann lækkaði verðið  og endugreiddi honum hluta af upphæðinni sem hann hafði greitt fyrir herbergið. Því svaraði maðurinn engu en hélt áfram að biðja Val um að breyta umsögninni.

„Ég hætti bara að svara honum en þá fékk ég sent þetta. Meðfylgjandi er hótun mannsins um lögsókn og ljóst er að enskukunnáttan er ekki eins mikið að vefjast fyrir honum og þegar Valur reyndi að kvarta undan herberginu:

Í þessari hótun sakar hótelstjórinn Val um ófrægingu sem sé refsivert athæfi að lögum. Valur þvertekur fyrir að um slíkt hafi verið að ræða í umsögn hans sem innihélt nokkrar staðreyndir, til dæmis það að enginn matur hafi verið á boðstólum og þetta sé engin lúxussvíta, sem og að loftræstingin hafi bilað. Ennfremur segir hann að dvölin hafi verið ömurleg sem er hans upplifun, huglægt mat sem allir hafa rétt á að tjá.

Valur hefur engar áhyggjur af þessari hótun og stórefast um að maðurinn hafi rætt við lögfræðing. Hann segist hins vegar hafa undrast hvers vegna engar aðrar neikvæðar umsagnir séu um staðinn á booking.com, þegar það sem í boði er þarna sé svo mikla óravegu frá lýsingum og myndum á booking.com. Valur spyr sig hvort það sé vegna þess að neikvæðar umsagnir hafi verið teknar út eftir hótanir.

Þess má geta að þessi skriflegu samskipti Vals og hótelstjórans hafa farið fram í gegnum What´s App, að kröfu hótelstjórans. Rétt fyrir ferðina vildi Valur gera viðvart um að þau hjónin myndu ekki lenda í Róm fyrr en um nótt. Vildi hann fullvissa sig um að það væri ekki vandamál að þau kæmu að hótelinu að næturlagi. Þá kom í ljós að hótelið er ekki með tölvupóstnetfang og þetta var eina samskiptaleiðin í boði. Það kom líka í ljós að engin næturvakt er á staðnum og þurfti hótelstjórinn að senda Val leiðbeiningarmyndband um hvernig hann kæmist inn og hvar herbergið hans væri. Telur Valur þetta enn eitt dæmið um að þessi gististaður geti ekki kallast hótel, hvað þá lúxussvítuhótel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Páll Óskar segir frá „kolvitlausum“ viðbrögðum foreldra sinna – „Hvaða helvítis pakk ert þú að umgangast“

Páll Óskar segir frá „kolvitlausum“ viðbrögðum foreldra sinna – „Hvaða helvítis pakk ert þú að umgangast“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sunna Valdís hjálpar milljónum manna

Sunna Valdís hjálpar milljónum manna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Maður á Sauðárkróki sakaður um hótanir og stafrænt ofbeldi – „Sturtuvídeó varð það víst. Þið vitið hvar það er“

Maður á Sauðárkróki sakaður um hótanir og stafrænt ofbeldi – „Sturtuvídeó varð það víst. Þið vitið hvar það er“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Alvarleg hnífstunguárás í miðborginni

Alvarleg hnífstunguárás í miðborginni
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Már segir að nú sé að verða tímabært að líta á COVID sem flensu

Már segir að nú sé að verða tímabært að líta á COVID sem flensu
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Fiskverð sagt komið að sársaukamörkum

Fiskverð sagt komið að sársaukamörkum