fbpx
Mánudagur 26.september 2022
Fréttir

Svört skýrsla um ferðamálastjóra – „Konurnar segjast allar finna fyrir því að sjálfstraust þeirra sé laskað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 7. júlí 2022 10:00

Skarphéðinn Berg Steinarsson. Mynd: Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur undir höndum hluta af skýrslu ráðgjafarfyrirtækisinis Officum, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ferðamálastjóri, Skarphéðinn Berg Steinarsson, hafi í einu tilviki gerst sekur um einelti í starfi og í öðrum tilvikum þar sem kvartað var sé stjórnunarháttum hans ábótavant. Ennfremur hefur DV undir höndum tölvupóst frá lögfræðingi BHM, frá því í síðasta mánuði, þar sem eindregið er hvatt til þess að starf ferðamálastjóra verði auglýst til umsóknar og í starfið ráðið aðili sem geti bætt laskaðan starfsanda á Ferðamálastofu. Ekki var orðið við þeim tilmælum og frestur til að tilkynna sitjandi ferðamálastjóra um að starfið verði auglýst til umsóknar er runninn út. Liggur því fyrir að Skarphéðinn Berg Steinarsson verður áfram ferðamálastjóri í að minnsta kosti fimm og hálft ár til viðbótar en skipun hans verður endurnýjuð til fimm ára um áramótin.

DV greindi frá því í apríl að þrír starfsmenn Ferðamálastofu, einn núverandi og tveir fyrrverandi, hefðu leitað til menningar- og viðskiptaráðuneytisins með kvartanir á hendur ferðamálastjóra fyrir ótilhlýðilega stjórnarhætti, ofbeldi og einelti. DV hafði þá samband við Skarphéðinn sem sagðist ekki geta tjáð sig efnislega um málið fyrir utan að hann væri mjög ósammála innihaldi kvartananna.

Eins og kom fram í frétt Ríkisútvarpsins um síðustu helgi var það niðurstaða könnunarfyrirtækisins Officum á kvörtunum starfsmanna og starfsanda innan Ferðamálastofu að Skarphéðinn hefði gerst sekur um einelti í tilfelli eins starfsmanns en ekki væri hægt að fullyrða að hann hefði verst sekur í einelti í tilviki hinna tveggja. Starfsmennirnir þrír eru allir konur.

DV hefur hluta af skýrslu Officum undir höndum. „Stjórnunarhættir ferðamálastjóra eru þess eðlis að þeir virðast valda fólki vanlíðan, kvíða og ótta í starfi. Starfsfólk hefur ekki þorað að tala gegn ferðamálastjóra og margir ekki svarað starfsánægjukönnunum,“ er meðal þess sem segir í skýrslunni.

„Menningar- og viðskiptaráðuneytið hafði samband við vinnusálfræðifyrirtækið Officium ráðgjöf ehf. í lok mars 2022 vegna formlegrar kvörtunar tveggja fyrrverandi starfsmanna ferðamálastofu og eins núverandi starfsmanns stofunnar, um einelti og/eða ofbeldis hegðun af hálfu ferðamálastjóra. Þar er óskað eftir að úttekt verði gerð á stjórnunarháttum og meintu ofbeldi og einelti hans í garð þessara starfsmanna,“ segir um forsögu málsins í skýrslunni.

Við gerð skýrslunnar var rætt við konurnar þrjár sem kvörtuðu og Skarphéðinn sjálfan. Auk þess var rætt við fimm vitni. Konurnar segjast hafa upplifað mikla óstjórn í störfum Skarphéðins og saka þær hann um að hafa niðurlægt sig frammi fyrir öðrum auk þess að gera upp á milli starfsfólks. Í skýrslunni segir meðal annars um þetta:

„Kvörtunaraðilar ótilhlýðilegrar hegðunar/stjórnunarhátta og eineltis af hálfu ferðamálastjóra eru þrjár áðurnefndar konur sem segjast hafa upplifað mikla óstjórn og „kaótíska“ stjórnunarhætti af hálfu ferðamálastjóra auk þess sem þær segja hann hafa niðurlægt þær og frammistöðu þeirra í starfi fyrir framan vitni. Til að mynda vegna kynninga sem þær gerðu fyrir ráðuneytið sem ferðamálastjóra fannst ekki góðar. Aðspurður út í það segir ferðamálastjóri að það sé mikilvægt að tala umbúðalaust út þegar eitthvað er ekki í lagi og t.d þegar klukkutími sé í fund með ráðuneytinu eins og þarna var. Hann segist ekki efast um að hann sé umbúðalaus maður sem geti bæði verið kostur og galli.

Konurnar upplifa sig óöruggar og segja að upplýsingaflæði sé ábótavant og mikilvægum upplýsingum sem varða þeirra starfslýsingu sé haldið frá þeim. Ferðamálastjóri fari ekki eftir stjórnsýslulögum í einu og öllu og taki geðþóttaákvarðanir þvert á reglur ef svo ber undir. Aðspurður um þetta segist ferðamálastjóri ekki kalla þetta geðþóttaákvarðanir heldur sé það stjórnandans að taka endanlegar ákvarðanir og það þurfi að setja niðurstöðu ákvörðunar í víðara samhengi t.d. við fjármagn og því þurfi að forgangsraða fjármagni á milli verkefna. Að auki kom fram í viðtölum að ferðamálastjóri eigi sér „uppáhaldsstarfsmenn“ sem og „uppáhaldsverkefni“ sem hann lætur meira fjármagn til. Einnig kom fram að hann hafi ráðið inn tvo forstöðumenn án auglýsingar.“

Konurnar vitnuðu um að samstarfið við Skarphéðinn hefði haft mjög slæm áhrif á sjálfstraust þeirra en í skýrslunni segir svo um þetta:

„Konurnar segjast allar finna fyrir því að sjálftraust þeirra sé laskað og þær voru farnar að trúa því að þær væru ekki starfi sínu vaxnar. Einnig kom fram að ferðamálastjóri skipti oft um skoðun í vinnuferlinu sem breytir þá plönum samstarfsfélaga og nálgunum sem farið var af stað með í upphafi.“

Drottnari og besserwisser

Í viðtölum við vitni var Skarphéðinn sakaður um að vera karlremba og dónalegur í tilsvörum. Hann sendi tölvupósta í boðhætti, t.d. „komdu“ eða „hringdu“ . Skarphéðinn sagði aðspurður um þetta að svona væri hann bara og þetta hefði verið stjórnunarstíll hans í 25 ár og hefði aldrei valdið vandkvæðum.

Ferðamálastjóra er lýst sem drottnara og „hrokafullum besserwisser“. Hann er sagður fyrirlíta opinbera starfsmenn og líta niður á ríkisstarfsmenn. Hann er sagður vera mislyndur og fólk hræðist hann almennt. Auk þess er hann sagður gera mannamun. Þetta er orðað svo í skýrslunni:

„Hann vilji hafa já fólk með sér í liði og eigi sér uppáhaldsstarfsmenn sem hann gantast í og hlær með á meðan hann talar ekki við aðra. Hann sé mislyndur og með stæla og fólk sé almennt hrætt við hann. „Hann er stjórinn og veit allt best og ræður öllu“. Þetta sé hans stíll sem sé gamaldags og úreltur. Tekið er fram að fólk sé almennt óöruggt í samskiptum við ferðamálastjóra. Einn viðmælenda setti fram dæmi um tilsvör til starfsmanna eins og „þetta er afspyrnu léleg hugmynd“. Að auki er talað um að fólk tipli á tánum á skrifstofunni og vilji vita í hvernig skapi ferðamálastjóri sé í ef það þarf að nálgast hann. Hann bjóði til dæmis ekki góðan daginn. Nokkrir viðmælendur ræddu um að þeir hefðu hætt að koma með tillögur og sýna frumkvæði í starfi vegna ótta um að gert yrði lítið úr þeim.“ 

Einnig segir í skýrslunni:

„Enn fremur er tekið fram í viðtölum að það sé verið að leita eftir mistökum starfsmanna og þeir fái aldrei nema neikvæða endurgjöf á sína frammistöðu í starfinu. Hrós sé ekki gefið.“

Lögmaður varaði við endurskipun Skarphéðins

Eins og áður segir hefði þurft að gera Skarphéðni viðvart um það fyrir síðustu mánaðamót ef Menningar- og viðskiptaráðuneytið, sem Ferðamálastofa heyrir undir, hefði hyggst ætla að auglýsa stöðu ferðamálastjóra um næstu áramót, en þá lýkur skipunartíma hans og hann endurnýjast í fimm ár sjálfkrafa.

Skýrslan frá Officum lá fyrir í síðasta mánuði og þá varaði lögfræðingur BHM, Andri Valur Ívarsson, við því að Skarphéðinn yrði skipaður áfram. Taldi hann niðurstöður skýrslunnar gefa eindregið tilefni til þess að staðan yrði auglýst og nýr ferðamálastjóri skipaður. Í tölvupósti til aðila í Menningar- og viðskiptaráðuneytinu sagði Andri:

„Innan nokkurra daga, fyrir lok júní mánaðar, þarf ráðherra að taka ákvörðun um hvort skipun ferðamálastjóra sem lýkur um áramót verði framlengd til loka árs 2027 eða hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Að framangreindu virtu og í ljósi þess ástands sem ríkir á stofnuninni má telja heppilegast að laust embætti verði auglýst til umsóknar og hæfasti umsækjandinn ráðinn til starfsins og fái það hlutverk að bæta starfsanda og líðan starfsfólks Ferðamálastofu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þjóðverjar kaupa gas frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum

Þjóðverjar kaupa gas frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Segja síðustu hótanir Pútíns mjög áhættusamar – Getur fært stríðið á nýtt stig

Segja síðustu hótanir Pútíns mjög áhættusamar – Getur fært stríðið á nýtt stig
Fréttir
Í gær

„Sjálfselska“ – Norðmenn deila vegna gríðarlegs gróða vegna Úkraínustríðsins

„Sjálfselska“ – Norðmenn deila vegna gríðarlegs gróða vegna Úkraínustríðsins
Fréttir
Í gær

Fimm tré rifnuðu upp með rótum í storminum á Seyðisfirði

Fimm tré rifnuðu upp með rótum í storminum á Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Margréti Friðriks vísað úr flugi Icelandair fyrir að neita að bera grímu – Vísar því á bug að hafa verið með læti

Margréti Friðriks vísað úr flugi Icelandair fyrir að neita að bera grímu – Vísar því á bug að hafa verið með læti
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kæru vegna meintra brota Sigurðar Inga á siðareglum vísað frá – Mótmæli bókuð í forsætisnefnd

Kæru vegna meintra brota Sigurðar Inga á siðareglum vísað frá – Mótmæli bókuð í forsætisnefnd