fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Fréttir

Héðinn og Sveinn segja mannréttindabrot framin á stofnunum landsins „nær daglega“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 3. júlí 2022 13:51

Til vinstri: Héðinn - Til hægri: Sveinn - Myndir: Geðhjálp.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 15. júní síðastliðnum segir að ekki séu fyrir hendi fullnægjandi heimildir í lögum til vistunar á öryggisgangi réttargeðdeildar. Um er að ræða þriðja álit eða skýrslu umboðsmanns á síðustu þremur árum þar sem talað er um að ekki séu neinar lagaheimildir til fyrir þeim þvingandi aðgerðum sem sjúklingar á geðdeildum landsins eru beittir.

Þeir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, og Sveinn Rúnar Hauksson, stjórnarmaður Geðhjálpar, ræða um þetta mál í pistli sem þeir birtur var á Vísi í dag en í honum segja þeir Héðinn og Sveinn að Geðhjálp hafi ítrekað bent á þetta vandamál. Þá segja þeir að það sé staðreynd að brotið sé á mannréttindum inni á stofnunum landsins en þeir segja að það gerist „nær daglega“.

Héðinn og Sveinn vitna í álit umboðsmanns Alþingis í pistlinum máli sínu til stuðnings. „Téður skortur á lagalegri umgjörð og aðhaldi kann að skapa hættu á því að vistun á öryggisgangi verði lengri en efni standa til auk þess sem líkur á misbeitingu úrræðisins verða óhjákvæmilega meiri en ella,“ segir í álitinu.

„Þetta er sorgleg staða í samfélagi sem vill láta kalla sig norrænt velferðarsamfélag,“ segja Héðinn og Sveinn svo. Þeir segja að Geðhjálp hafi í áratugi talað fyrir umbótum á lögræðislögunum, það er að segja þeim lögum sem heimila þvingun og nauðung á fólki með geðsjúkdóma. „Þessum þvingunar- og nauðungarákvæðum hafa samtökin viljað breyta um langt skeið á þeim grundvallarforsendum að nauðung og meðferð fari aldrei saman.“

Þrátt fyrir að lögunum sem um ræðir hafi verið breytt árið 2015 var breytingin ekki næg að mati Geðhjálpar. „Því er það að okkar mati nú nauðsynlegt að efna til víðtæks samráðs og samtals við alla haghafa því nú stendur til að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og sú lögfesting hefur miklar breytingar í för með sér sem nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld að samhæfa miðlægt og þvert yfir stjórnvöld,“ segir í pistlinum.

Dæmi um að valdbeiting hafi dauða sjúklings í för með sér

Héðinn og Sveinn segja í pistlinum að undanfarin misseri og fyrir það hafi borist fréttir af málum sem tengjast þvingandi aðgerðum gagnvart notendum þjónustu geðsviðs Landspítalans og annarra stofnana. „Lyfjaþvinganir, innilokun á herbergi, útivistarbann, símabann, skömmtun á mat og kaffi og jafnvel líkamlegt og andlegt ofbeldi,“ segja þeir.

„Hluti þessara aðgerða er tilkominn vegna mönnunarvanda og óhentugs húsnæðis, hluti vegna kerfisvanda og gamaldags hugmyndafræði sem byggir um of á öryggismenningu en allar virðast þær þó til staðar vegna þess að lögin veiti til þess heimild sem hefur verið nýtt og jafnvel á stundum útvíkkuð. Ferlar meðferðar sem boðið er upp á taka ekki alltaf tillit til þarfa notenda heldur virðast á stundum byggja á þörfum starfsmanna. Eftirlit með þessum stofnunum hefur því miður ekki verið nægjanlegt eins og skýrslur umboðsmans gefa glöggt til kynna.“

Þeir segja að mörg dæmi séu um að valdi sé beitt þrátt fyrir að ekki hafi verið um lífshættu að ræða. „Ferlar meðferðar sem boðið er upp á taka ekki alltaf tillit til þarfa notenda heldur virðast á stundum byggja á þörfum starfsmanna. Þannig hefur fólk verið sprautað niður, sem kallað er, með valdbeitingu í því skyni að koma viðkomandi sem fyrst í ró og til að koma í veg fyrir óróa á deildum stofnanna. Dæmi eru þess að valdbeiting gangi svo langt, að hún hafi dauða sjúklings í för með sér,“ segja þeir.

„Á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans dvelur fólk svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Það verður að vera hægt að treysta því að starfsemi sem fer þar fram, sem og á fleiri lokuðum deildum og stofunum standist lög og ákvæði stjórnarskrárinnar.“

Leggja til að Ísland verði gert að þvingunarlausi landi

Í pistlinum segja þeir Héðinn og Sveinn að Geðhjálp ítreki mikilvægi þess að tryggja mannréttindi einstaklinga sem búa við geðrænar áskoranir, koma þurfi í veg fyrir hvers konar þvingun og nauðung.

Haustið 2020 lagði Geðhjálp til lista með níu aðgerðum til þess að setja geðheilsu í forgang. Yfir 30 þúsund skrifuðu undir þennan lista. Ein þessara aðgerða var að útiloka nauðung og þvingun við meðferð.

„Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ökumaður rafmagnshlaupahjóls grunaður um að hafa verið undir áhrifum – Meiddist töluvert þegar hún féll af rafmagnshlaupahjóli

Ökumaður rafmagnshlaupahjóls grunaður um að hafa verið undir áhrifum – Meiddist töluvert þegar hún féll af rafmagnshlaupahjóli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var misnotaður af eldri bróður sínum – „Lögreglan var aldrei að vinna með okkur, heldur alltaf að vinna á móti okkur.“ 

Var misnotaður af eldri bróður sínum – „Lögreglan var aldrei að vinna með okkur, heldur alltaf að vinna á móti okkur.“