fbpx
Föstudagur 01.júlí 2022
Fréttir

Skipstjóri sakfelldur fyrir strandið við Papey – „Og svona fór um sjóferð þá“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 19. maí 2022 14:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skipstjóri fiskibáts, sem tók niður á grynningu austur af Papey í október 2020, hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi, vegna strandsins en hann var ákærður fyrir brot á lögum um lögskráningu sjómanna sem og brot á siglingarlögum. 

Dómurinn féll í Héraðsdómi Austurlands á mánudaginn síðast liðinn.

Fregnir bárust af strandinu þann 4. október 2020 en þá sagði að fjórum hefði verið bjargað úr litlu fiskiskipi sem hafði tekið niður á grynningu austur af Papey.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út, björgunarsveitir Austurlands líka og nærstödd fiskiskip voru beðin um að koma til aðstoðar.

Í ákæru á hendur skipstjóra skipsins var honum gefið að sök að hafa vanrækt að sjá til þess að tveir skipverja á bátnum hefðu verið lögskráðir á skiprúm áður en haldið var úr höfn í veiðiferðina.

Eins var skipstjórinn ákærður fyrir brot á siglingarlögum fyrir að hafa í starfi sínu sem skipstjóri með yfirsjónum og vanrækslu siglt bátnum án þess að fylgjast nægilega vel með staðsetningar- og siglingatækjum með þeim afleiðingum að hann mat staðsetningu rangt sem olli því að hann sigldi skipnu í strand á Flyðrusker. En við áreksturinn kom stórt gat á skipið.

Þessi háttsemi hafi varðað við ákvæði siglingarlaga sem segir:

„Hafi skipstjóri, stýrimaður eða vélstjóri orðið valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi sínu varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.“

Skipstjórinn einn í stýrishúsi þegar slysið átti sér stað

Skipstjórinn játaði sök hvað varðaði lögskráningu tveggja háseta, en neitaði að hafa brotið gegn siglingarlögum. Taldi hann að strandið mætti rekja til bilunar í siglingartækinu Time Zero kortatölvu eða til misvísunar í GPS-sendi, en nefndur tölvubúnaður hefði frosið skömmu fyrir ásiglinguna.

Þegar slysið átti sér stað voru hinir þrír skipverjarnir, verið farnir „í koju“ og skipstjórinn því einn í stýrishúsinu.

Veður hafi verið gott, nánast logn og sjór sléttur en með smá undiröldu.

Eftir að skipið sigldi á sker nærri Papey sem nefnist Flyðrusker hafi vél skipsins áfram verið með afli og gat skipstjórinn siglt aftur á bak frá skerinu. Ljóst var þá strax að báturinn hafi laskast mikið að framan og sjór streymdi inn og náði allt upp í loft í aðstöðu skipverja í borðsal og eldhúsi.

Ákvað skipstjórinn þá að áhöfnin færi öll frá borði og óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslu. Skipverjar fóru allir í björgunarvesti og í björgunarbát, nema skipstjórinn sem „fór í sjóinn og dró hann þá jafnframt björgunarbátinn á sundi frá B [skipinu].“

Annar bátur kom á vettvang 15 mínútum eftir ásiglinguna og fóru skipbrotsmennirnir þá allir þar um borð.

Fljótlega hafi orðið ljóst að möguleiki væri á að bjarga skipinu og fór skipstjórinn þá aftur um borð ásamt stýrimanni sínum og var skipið í framhaldi tekið í tog og dregið til hafnar í Djúpavogi.

Skipstjórinn var svo yfirheyrður daginn eftir og var gefin réttarstaða sakbornings.

Deilt um hvað olli slysinu

Við yfirheyrslu kom fram að skipstjórinn hefði verið með kveikt á siglingatölvu í bátnum en verið með tiltekið fréttablað yfir skjánum. Hafi hann talið að hann væri um „800 föðmum austan við Flyðruskerið þegar skyndilega hefði komið högg á hann.“

Í málinu var tekist á um hvort að skipstjórinn hafi verið með athyglina nægilega vel við siglinguna eða hvort að slysið hafi orðið sökum bilunar í tölvubúnaði.

Skipstjórinn lýsti eigin stjórntökum við siglingu bátsins þetta kvöl með eftirfarandi hætti:

„Ég tek bara punkt áður en maður kemur á svæðið fyrir framan Papey, Flyðrusker og þetta svæði…. og svo tekur þú annan punkt þar… Ég er búinn að sigla þarna marg oft – þú missir ekki einbeitinguna þegar þú ert með annarra manna líf í höndunum.“

Skipstjórinn hafði siglt þessa leið margoft og taldi að tölvubúnaður hefði sýnt ranga staðsetningu skipsins sem hafi gert það að verkum að það hafnaði á skerinu.

Eftir höggið hafi annars skipverji komið að skipstjóranum:

„Og ég segi við hann; „Tölvan sýnir að við séum á öðrum stað.“ En hann nær ekki að líta á tölvuna til þess að sjá það því það flæðir það skart inn að það drepst á öllu rafmagni og það slær öllu út… Og svona fór um sjóferð þá. Og ég tek bara ákvörðun um það.. að við skyldum bara henda björgunarbátnum út og fara í hann. Ég fer aldrei í björgunarbátinn sjálfur, ég var hræddur um mína áhöfn, en ég tek í spotta á björgunarbátnum og er að synda að honum frá bátnum þangað til G[annar bátur sem kom að] kemur og pikkar okkur upp.“

Skipstjóri greindi einnig frá því að hafa notast við aðalsiglingatölvuna eina, en á aukatölvu hafi fréttamiðill verið opinn. Hann hafi einnig átt í símasambandi við annan skipstjóra til að ræða veiðar.

Sýndi af sér yfirsjón og vanrækslu

Dómari taldi ljóst af ítarlegum gögnum máls, meðal annars svörum dómkvadds matsmanns sem fjöldi tæknilegra spurninga voru lagðar fyrir, að skipstjórinn hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu. Í dómi segir:

„Vegna lýstra aðstæðna hafi ákærða borið að sýna sérstaka aðgæslu og þá m.a. með því að fylgjast vel með þeim staðsetningar- og siglingatækjum, sem um borð voru, en einnig öðrum merkjum, þ.á.m. ljósgeirum frá vitum, og þá í samræmi við góðar venjur og kunnáttu í siglingum og sjómennsku. Í því viðfangi verður m.a. ekki horft fram hjá því að ákærði hefur borið um að hann hafi m.a. skömmu fyrir ásiglinguna verið í símaviðtali. Því til viðbótar verður ráðið af frásögn ákærða, að hann hafi einnig verið að gæta að netfréttamiðlinum“

Jafnvel þó að meiningar skipstjórans um bilun í tölvubúnaði væru réttar þá hefði hann engu að síður átt að hafa nægan tíma til að taka eftir biluninni og bregðast við.

„Ákærði hafi miðað við aðstæður eigi sýnt nægjanlega aðgæslu og árverkni við siglingu B í greint sinn, og að hann hafi með þeirri háttsemi sýnt af sér yfirsjón og vanrækslu við stjórntök bátsins, og þá með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.“

Dómur Héraðsdóms Austurlands í heild sinni

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

R.Kelly dæmdur í 30 ára fangelsi – Hélt barnungum stúlkum sem kynlífsþrælum

R.Kelly dæmdur í 30 ára fangelsi – Hélt barnungum stúlkum sem kynlífsþrælum
Fréttir
Í gær

Svik Gluggasmiðjunnar: Hurðalaus sumarbústaður og gluggalaus hús – „Þeir mega ekki svíkja fleiri“

Svik Gluggasmiðjunnar: Hurðalaus sumarbústaður og gluggalaus hús – „Þeir mega ekki svíkja fleiri“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dularfull pest herjar á Íslendingahótel á Tenerife – Gubbað í matsalnum, í sundlaugina og við lyfturnar

Dularfull pest herjar á Íslendingahótel á Tenerife – Gubbað í matsalnum, í sundlaugina og við lyfturnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur Andri fékk undarleg skilaboð á Facebook að kvöldi til

Guðmundur Andri fékk undarleg skilaboð á Facebook að kvöldi til