fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Barnsfaðir Freyju er grunaður um alvarlegan glæp – Hvað á hún að segja við börnin?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 9. apríl 2022 10:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lesendur hafa eflaust margoft lesið fréttir á þessum vef um alvarleg afbrot, kynferðisbrot, líkamsárásir, fjársvik. Í alvarlegum málum eru brotamenn oft nafngreindir. En bak við slíkar fréttir eru margar aðrar ósagðar sögur og margar ósvaraðar spurningar, til dæmis: Hvernig reiðir þolandanum af? Hvaða áhrif hefur glæpurinn á fjölskyldu brotamannsins?

Freyja Huld Hrólfsdóttir er barnsmóðir manns sem hefur verið í fréttum vegna afbrota. Fyrir fimm árum gerðist hann sekur um kynferðisbrot sem fól í sér kynferðisleg samskipti við tálbeitu, sem hann taldi vera unglingsstúlku. Eins og oft í þessum brotaflokki tók rannsókn málsins langan tíma og maðurinn var ekki sakfelldur fyrr en þremur árum síðar. Maðurinn er núna grunaður um mun alvarlegra afbrot. Í desember síðastliðnum var hann handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um alvarlegt kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku. Málið er enn í rannsókn.

Umræddur brotamaður á son sem er að verða sjö ára gamall og uppeldisson sem er tveimur árum eldri. Barnsmóðir hans, Freyja Huld Hrólfsdóttir, stendur frammi fyrir erfiðum spurningum við þessar aðstæður. Er eðlilegt að maður sem grunaður er um svo alvarlegan glæp umgangist börn sín? Hvernig á að miðla upplýsingum um málið til barna hans? Nafn hans hefur þegar verið birt í fjölmiðlum og hann gæti þurft að sitja af sér langan dóm í nánustu framtíð. Hvernig á að útskýra fyrir börnunum ef umgengni þeirra við föðurinn vegna þessara mála verður stöðvuð?

Freyja gagnrýnir að fátt sé um svör við spurningum af þessu tagi hjá félagslega kerfinu og hún hafi sjálf þurft að hafa frumkvæði að öllum samskiptum til að fá upplýsingar. „Ég neita að trúa því að það sé enginn og ekkert sem grípur þessa krakka,“ segir Freyja og fer yfir dagana í kjölfar hins meinta brots í desember:

„Ég fékk engar upplýsingar fyrr en ég leitaði eftir þeim sjálf. Daginn sem hann var beðinn um að koma í skýrslutöku þá var hann með drengina hjá sér. Lögreglumaðurinn spurði hvort hann vildi koma sjálfur eða verða sóttur. Hann hafði samband við mig og sagði að hann hefði verið sakaður um afbrot og ég yrði að sækja drengina. Hann fór ekki út í fyrir hvað hann var sakaður en ég sagði við hann: Gott og vel, ég sé bara um drengina og þú reynir að leysa úr þínum málum sjálfur.“

Freyja var gífurlega áhyggjufull bæði vegna sonanna en ekki síður vegna þolanda mannsins og hún var andvaka af hugsunum um hvernig stúlkunni sem varð fyrir árásinni reiddi af.

Strax upp úr helginni hringdi lögmaður barnsföðurins í Freyju og sagði henni að hann hefði verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. „Ég þekki nóg til afbrotamála til að vita að ef maður er úrskurðaður í gæsluvarðhald er hann grunaður um að hafa gert eitthvað mjög alvarlegt af sér. Samt hafði lögreglan ekki samband við mig út af þessu og ekki barnavernd,“ segir Freyja sem hafði sjálf samband við lögregluna á mánudeginum eftir helgina sem hið meinta afbrot átti sér stað. Hún vildi meðal annars fá ráð um að hvað hún ætti að segja drengjunum sem núna gátu skyndilega ekki heyrt í föður sínum en höfðu verið hjá honum bara síðast um helgina.

„Þeir sögðu, segðu þeim bara að hann sé að vinna uppi á jökli. En við höfum lengi verið leiðsögumenn og hvað eftir annað verið að vinna uppi á jökli og haft samband við drengina þaðan símleiðis,“ segir Freyja og greinir líka frá því að barnavernd hafi ekki haft samband. Hún hafi sjálf haft samband við barnavernd til að leita sér ráða. Henni þykir mjög undarlegt að þegar maður sem hefur umgengni við ung börn er grunaður um alvarlegt kynferðisbrot gegn barni þá skuli barnavernd ekkert hlutast til um málið. Hún segir:

„Þetta eru tvö börn, hann er pabbi þeirra sama hvað. En það er enginn sem hringir og segir: pabbi barnanna þinna var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald. Þetta eru næstu skref í málinu. Ég var bara eins og gufa þarna í nokkra daga og bara beið eftir svörum sem ekki fengust. Hringjandi hingað og þangað að leita eftir aðstoð en ég fékk engin svör.“

Tilkynnt til barnaverndar vegna umgengni á heimilinu

Freyja segist hafa fengið þær skýringar hjá barnavernd á því hvers vegna ekki hafi verið haft samband við hana í kjölfar hins meinta kynferðisbrots barnsföður hennar að það hafi ekki verið gert vegna þess að hann á ekki lögheimili með börnunum. Það þykir henni vera sérkennilegt verklag því hann er með skipta forsjá yfir syni sínum og hefur notið mikillar umgengni við uppeldisson sinn.

Freyja komst síðan að því að lögreglan hafði í kjölfar skýrslutökunnar og handtökunnar í desember haft samband við barnavernd en ekki út af kynferðisbrotinu heldur til að tilkynna um mjög slæma umgengni á heimili mannsins.

„Það er ekkert sem grípur börnin mín. Ég veit að það eru margir foreldrar í þessari stöðu. Ég hefði viljað að einhver úr kerfinu hefði hringt, tjáð mér að barnsfaðir minn væri grunaður um kynferðisbrot og síðan leiðbeint mér um hvað tæki við varðandi börnin. En það er ekkert ferli til staðar. Sjálf hef ég hringt út um allt til að leita mér upplýsinga, til lögreglu, til prests, til sálfræðings og til barnaverndar. En það er enginn sem hefur samband við mig að fyrra bragði. Ég vil bara að kerfið meti stöðuna, af hverju er ekki einhver aðili frá félagsþjónustnni eða lögeglunni sem hefur samband þegar svonalagað gerist?“

Vegna þrábeiðni Freyju voru drengirnir teknir í viðtal í barnahúsi, í um 15 mínútur hvor. Niðurstaðan var sú að ekkert benti til þess að þeir yrðu fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu föðurins. „En hvað með andlegt ofbeldi? spurði ég. Því var svarað að það yrði bara að koma í ljós.“

„Ég mun aldrei tálma“

Freyja hefur ekki gert upp við sig hvort henni finnist rétt að barnsfaðir hennar umgangist drengina eða ekki. En hún vill fá faglegt mat á því og leiðsögn. Þess í stað upplifir hún að kerfinu finnist hún bara vera rugluð að spyrja svona mikið. Hún eigi bara að bíða róleg eftir því að dómur falli í máli mannsins, engar ákvarðanir verði teknar fyrr en þá.

„Síðast tók það þrjú ár að bíða eftir dómi. Ég hef ekki þann tíma, börnin mín hafa ekki þann tíma, ég get ekki bara setið og beðið svo lengi,“ segir Freyja, sem hefur síður en svo áform um að tálma lögmæta umgengni: „Ég hef sagt það áður að ég mun aldrei tálma. Þetta er barnið hans sama hvað, ég vil bara gera þetta vel og gera þetta rétt. Ég vildi bara að það væri einhverjir verkferlar til staðar við svona aðstæður en svo er ekki.“

Freyja bendir á að erfiðar spurningar geti leitað á börn eftir svona atburði og hún er í mikilli þörf fyrir leiðsögn til að svara þeim. „Þegar einhver er settur í fangelsi þá hefur lögreglan handtekið hann. Er þá lögreglan orðin vondi kallinn? Hvernig get ég útskýrt þetta fyrir þeim án þess að löggan sé vondi karlinn í sögunni?“

Freyja óskar þess að geta komist í samband við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og fá hjá viðkomandi ráð um hvernig á að tala við börn um stöðuna. Hættan á einelti barna afbrotamanna er líka atriði sem veldur henni áhyggjum en barnsfaðir hennar hefur þegar verið nafngreindur í fjölmiðlum og íbúahópi á Facebook.

Freyja hefur ekki niðurnegldar skoðanir á því hvort maðurinn ætti að fá að hitta drengina og undir hvaða skilyrðum. Hún telur þó æskilegt að umgengni við þá færi fram undir eftirliti og þekkir dæmi þess að þegar börn afbrotamanna dveljist hjá þeim sé fulltrúi frá barnavernd líka á staðnum.

Freyja hefur ekki áhyggjur af því að maðurinn brjóti kynferðislega gegn drengjunum enda aldrei neitt komið fram sem bendir til slíks. Í dómnum sem féll yfir honum vegna samskipta við tálbeitu kom fram að hann taldi sig vera að ræða við 13 ára stúlku. Hann er síðan grunaður um nauðgun á 14 ára stúlku. Fyrra brotið varð ásamt öðru til þess að Freyja sleit sambandi við manninn. Sem fyrr segir eru bræðurnir tveir, tæplega sjö ára og tæplega níu ára. Maðurinn er faðir yngri drengsins og hefur notið umgengni við hann. Eldri drengurinn var tíu mánaða þegar maðurinn kom inn í líf hans en hann hefur alið hann upp ásamt Freyju. Hún hefur takmarkað mjög umgengni eldri drengsins við hann en hann var þó hjá honum helgina sem hann var handtekinn. Freyja segir að eldri drengurinn sé mjög tengdur við fjölskyldu mannsins sem hann auðvitað líti á sem sína fjölskyldu. Þau hafi hins vegar ekkert verið í sambandi við hann síðan hið meinta afbrot átti sér stað í desember og það veki eðlilega erfiðar spurningar í huga drengsins.

Freyja hefur orðið vör við það sem hún kallar „rauð flögg“ hjá yngri drengnum eftir umgengni við föður sinn. Hann hafi stundum komið til baka frá honum fullur af skapofsa. Það hefur eðlilega valdið henni áhyggjum. En drengirnir eru líka tilfinningalega tengdir föðurnum og hún vill ekki loka á umgengni við hann án þess að slík ákvörðun sé byggð á vel ígrundaðri ráðgjöf. En ráðgjöfina skortir fullkomlega og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Á góðum stað í dag

Ástæðan fyrir því að Freyja hefur stigið fram í þessu viðtali er sú að hún vill benda á þessar brotalamir: Þegar foreldri fremur alvarleg afbrot virðist ekki vera til staðar neitt verkferli til að ákvarða um umgengni þess við börn sín. Enn fremur virðist ekki vera til staðar nein ráðgjöf um hvernig hlúa beri að börnum afbrotamanna og útskýra fyrir þeim hvað hefur gerst. Þetta hefur Freyja reynt mjög á eigin skinni og hún einlæglega óskar eftir umbótum á þessu sviði.

Þegar DV hitti Freyju var í hún í fylgd núverandi sambýlismanns síns. Bæði komu afar vel fyrir, gott virðist á milli þeirra og heiðríkja yfir sambandinu. Sjálf var Freyja skýr í hugsun og tali í spjalli sínu við blaðamenn. Þrátt fyrir þetta á hún að baki langt samband við einstakling sem virðist um margt vera markalaus og ofbeldisfullur. DV spurði Freyju hvort hún teldi sig vera á góðum stað í lífinu í dag:

„Ég er loksins kominn á góðan stað í dag og tilbúin að takast á við vandamálin. Ég deili líka lífinu núna með manni sem stendur við bakið á mér.“

En vandinn sem hún stendur frammi fyrir er engu að síður alveg óleystur. „Ég er að reyna að sækja mér aðstoð til að geta sagt drengjunum frá því hvað er í gangi. Að einhver segi mér hvernig ég á að útskýra fyrir þeim stöðuna. En mér er sagt að ég þurfi bara að bíða þar til hann fær dóm. Ég hef ekki þann tíma,“ segir Freyja Huld Hrólfsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala