fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hvers vegna brann bíll Kristjáns? – Innkallanir framundan á tilteknum Kia-bílum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 7. apríl 2022 13:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá um daginn varð Dalvíkingurinn Kristján Már Þorsteinsson fyrir því að bíll hans varð alelda fyrir utan Dalvík, af ókunnum ástæðum. Fuðraði bíllinn upp á einni mínútu en í dálítinn tíma áður hafði fundist í honum einskonar brunalykt sem minnti á lykt af bráðnu plasti.

Um er að ræða bíl af gerðinni Kia Sorrento, árgerð 2015, og telur Kristján blasa við að um verksmiðjugalla sé að ræða.

Kristján lýsti atburðarásinni svo í viðtali við DV á þriðjudaginn:

„Ég var að sækja dóttur mína til Akureyrar og var rétt kominn út fyrir Olís-stöðina, sem er síðasta húsið áður en farið er út úr bænum, og er aðeins kominn yfir brúnna þegar ég fer að finna einhverskonar plast-rafmagns-brunalykt. Ég skili ekkert í þessu og byrja á að slökkva á sætishitanum og slökkti síðan á hitanum í stýrinu. Svo held ég áfram upp hálsinn svokallaða, sem liggur frá Dalvík, lyktin fer ekki og ég prófa að skrúfa niður rúðurnar.“

Við það að útiloftið streymdi inn um opna gluggana sér Kristján reyk stíga upp fyrir aftan stýrið, þar sem það tengist inn í mælaborðið. „Ég hugsaði, fokk, það er einhver fjandinn í gangi. Ég var þarna við útsýnispall þar sem gott er að leggja, stöðva bílinn þar og drep á honum. Við það heyrði ég snarkhljóð,“ segir Kristján sem þarna var sannfærður um að það væri kviknað í vélinni.

Hann varð hins vegar ekki var við neinn eld þegar hann opnaði vélarhlífina og heldur ekki inni í bílnum. Hann varð eldsins var á undarlegum stað, en gólfmotturnar voru blautar og þegar hann horfði niður í þær sá hann eldsloga speglast í þeim.

„Ég hringdi í 112, opnaði bílinn og ætlaði í rólegheitum að taka út úr honum einhverjar Bónusvörur. Ég segi við manninn á línunni að ég geti ekki lengur staðið við bílinn en hann sagði: Forðaðu þér! Andartaki síðar var ég kominn niður á þjóðveg. Rétt eftir það var bíllinn orðinn eins og hann sést á myndbandinu sem ég birti.“ Bíllinn varð alelda á einni mínútu frá því að Kristján sá eldinn endurspeglast í mottunum.“

Kristján átti von á sprengingum og forðaði sér langt í burtu niður á þjóðveg. En það urðu engar sprengingar. „Það heyrðust litlir hvellir, svipað og við áramótabrennu, þá hafa líklega rúðurnar verið að springa. Síðan varð reykurinn dekkri og þá hefur eldurinn verið kominn í díseltankinn.“

Tvö tilfelli á Íslandi

DV bar málið undir Jón Trausta Ólafsson, framkvæmdastjóra bílaumboðsins Öskju, sem flytur inn bíla af gerðinni Kia. Staðfestir hann að atvik af þessu tagi séu samtals tvö á Íslandi, þ.e. eitt atvik fyrir utan mál Kristjáns í vikunni. Bæði atvikin snerta Kia Sorrento árgerð 2015. Hefur framleiðandinn tilkynnt að hann muni innkalla þessa bíla á næstu vikum, til skoðunar og viðgerða ef þörf krefur. Mun viðgerðin fela í sér hugbúnaðaruppfærslu og stutta skoðun, jafnvel skipti á varahlut.

Bílar af gerðinni Kia Sorrento árgerð 2015 eru samtals 1.070 á Íslandi og sem fyrr segir eru tvö dæmi um óútskýrðan bílbruna í slíkum bílum. Verið er að yfirfara Kia-bílana á Íslandi og hefur Askja lokið þjónustuskoðun og hugbúnaðaruppfærslu á um 150 bílum. Svar Jóns Trausta við skriflegri fyrirspurn DV um málið er eftirfarandi:

„Varðandi fyrirspurn þína. Þá höfum við heyrt í eiganda umræddrar bifreiðar og verður málið tilkynnt til framleiðenda eins og venjan er og gagnaöflun hefur farið fram. Við þekkjum til þessa máls en framleiðandinn hefur tilkynnt okkur að á næstu vikum muni hann kalla umræddar bifreiðar sem tilheyra ákveðnu framleiðslutímabili inn til skoðunar og viðgerða ef þörf krefur.  Viðgerðin sem um ræðir er hugbúnaðaruppfærsla og skoðun sem tekur um 20 mínutur og ef umskipti á varahlut er þörf tekur viðgerð um 40 mínutur.  Tilvikin sem við þekkjum í þessu tiltekna máli eru núna 2 talsins hér á landi en bílar á þessu framleiðslu tímabili eru 1.070 talsins.

Fyrir var í gangi þjónustuaðgerð – sem þýðir að horft var til þessarar mögulegu bilanar í þjónustuskoðun og hefur Askja nú þegar lokið skoðun og hugbúnaðaruppfærslu á um 150 ökutækjum.  En þar sem framleiðandi hefur ákveðið að breyta þessu í innköllun þá er ferlið þannig að Askja mun á næstu dögum tilkynna Mannvirkjastofnun um málið eins og vera ber og í framhaldi hafa samband við eigendur umræddra bifreiða með boðun á þjónustuverkstæði, þeim að kostnaðarlausu.   Ákvörðun þess efnis að breyta þessari þjónustuaðgerð í innköllun var ekki tekin út frá þessu einstaka máli.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“