fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Gagnrýnir RÚV fyrir að sýna þætti með Víkingi um páskana – „Á meðan meintur gerandi skemmtir þjóðinni“

Erla Dóra Magnúsdóttir, Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 7. apríl 2022 11:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gabríela B. Ernudóttir, sálfræðingur og formaður samtakanna Líf án ofbeldis, gagnrýnir að um páskana séu íslenskir þættir á dagskrá hjá RÚV þar sem meintur gerandi fer með hlutverk og spyr hvers vegna sjónvarp allra landsmanna taki ekki afstöðu gegn ofbeldi. Hún ritar grein um málið sem birtist hjá Vísi í dag.

Ljóst er að í greininni vísar Gabríela til þáttanna Vitjanir sem hefjast á RÚV þann 17. apríl, en um er að ræða 8 þátta seríu, þó hún nefni hvorki þættina né meintan geranda á nafn.

Í þáttunum fer Víkingur Kristjánsson með hlutverk, en hann steig fram í viðtali við Stundina í júlí 2019 og greindi þar frá því að hann hafi sætt rannsókn í eitt og hálft ár, grunaður um að hafa beitt son sinn kynferðislegu ofbeldi, ásökun sem Víkingur sagði að Barnahús hafi ákveðið að ekki væri fótur fyrir.

Í grein sinni vísar Gabríela til  eldri umfjöllunar Lífs án ofbeldis, frá apríl 2021,  þar sem orðrétt er tekin tilvitnun frá Víkingi úr áðurnefndu viðtali. Í þeirri umfjöllun er vísað til fjölda gagna sem sýni fram á annað en Víkingur hafi staðhæft í viðtali sínu, meðal annars þess að Barnahúss hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekkert ofbeldi hafi átt sér stað. Gabríela segir í grein sinni í dag að umfjöllun Lífs án ofbeldis árið 2021 hafi verið neyðarúrræði barninu til varnar vegna rangfærslna meints geranda.

Meintir gerendur í sjónvarpi allra landsmanna

Gabríela vísar í dag til þess að undanfarið hafi orðið straumhvörf í vitundarvakningu í samfélaginu hvað varði völd og viðveru meintra gerenda í sviðsljósinu – sem valdi þolendum almennt miklum þjáningum. Því sæti það furðu að áðurnefndir þættir séu á dagskrá ríkissjónvarpsins sem sé rekið í almannaþágu.

„RÚV ber því skylda til að vernda hagsmuni almennings, líka þolenda ofbeldis, og fylgja tíðaranda hverju sinni. Þolendur ofbeldis geta upplifað sársaukafullar tilfinningar og minningar sem koma upp ef þeir verða varir við gerendur sína, eða gerendur annarra, í sjónvarpi eða annars staðar í sviðsljósinu, og gegnir RÚV því miklu ábyrgðarhlutverki að valda ekki þolendum ofbeldis óþarfa þjáningu með því að sýna meinta gerendur þeirra í sjónvarpi allra landsmanna.“

RÚV í algjörri mótsögn við eigin fréttaumfjöllun

Skemmst sé að minnast viðbragða samfélagsins við viðtali Kveiks við leikarann Þórir Sæmundsson í umfjöllun um útilokunarmenningu, en sú umfjöllun var gagnrýnd sem einhliða og skaðleg þolendum. RÚV hafi í kjölfarið reynt að klóra í bakkann með því að skipuleggja aðra umfjöllun þar sem rætt var við aktívista, en sú umfjöllun hafi þó ekki haft erindi sem erfiði.

„Hefur þá RÚV ekki séð mikla ástæðu til að taka önnur sambærileg viðtöl við þolendur sams konar ofbeldis og viðmælandinn er sakaður um, hvorki áður né eftir þetta viðtal“

Sjá einnig: Aftur óánægja með umfjöllun Kveiks – „Fengnir með viku fyrirvara í 40 mín „damage control“ -„Þarf allt að veita körlum dagskrárvald yfir öllu?“

RÚV hafi einnig fjallað um það í tengslum við mál Vítalíu Lazarevu sem greindi í janúar frá kynferðislegu ofbeldi sem hún varð beitt í hlaðvarpsþættinum Eigin konur.

„RÚV fjallaði einnig um það í janúar síðastliðnum að ekki væri „hægt að þegja af sér málin lengur“, eftir að fimm menn sem voru áhrifamenn í stjórnum stórra fyrirtækja og áberandi í þjóðlífinu, „hrökkluðust“ – eins og það er orðað á vefmiðli RÚV – frá störfum vegna ásakana um kynferðisbrot. Má því segja að RÚV sé í algjörri mótsögn við eigin fréttaumfjöllun af þjóðfélagsumræðu síðustu mánaða.“

Sjá einnig: Samantekt á máli dagsins – Fimm þjóðþekktir karlmenn stíga til hliðar í kjölfar ásakana ungrar konu um kynferðisbrot

Eiga þolendur að forðast að horfa á sjónvarpið?

Í ljósi þessa segir Gabríela það athyglisvert að RÚV ákveði að sýna þætti með meintum geranda og það um páskana.  Gabríela segir það vekja upp margar áleitnar spurningar um afstöðu RÚV til þolenda ofbeldis.

„Á þolandi meints geranda, fjölskylda þolanda, aðrir þolendur í samfélaginu og allir aðstandendur þeirra að þurfa að forðast það að horfa á sjónvarpið á hverju sunnudagskvöldi í átta vikur? Eða forðast að kveikja á sjónvarpinu yfir höfuð til að komast hjá því að sjá auglýsingar um þættina? Mega þolendur eiga von á því að RÚV hafi fleiri meinta gerendur á dagskrá í framtíðinni? Finnst stjórnendum RÚV meintir gerendur vera hin raunverulegu ​​fórnarlömb í þessu einhvern veginn“, en ekki þolendur?“ 

Meðan meintur gerandi skemmtir þjóðinni

Gabríela spyr hvort RÚV sé með þessari ákvörðun að samþykkja það að skömm sé haldið að þolanda, barni og þolendum almennt. RÚV eigi að vera sjónvarp allra landsmanna og sé ríkisrekinn miðill.

„Er RÚV með þessu að samþykkja það að skömminni sé haldið að þolanda, barninu og þar með þolendum almennt á meðan meintur gerandi skemmtir þjóðinni? Þar sem RÚV á að heita sjónvarp allra landsmanna og er ríkisrekinn miðill, erum við landsmenn öll skyldug til að borga með því efni sem þar birtist. Spyr ég því hvers vegna RÚV tekur ekki afstöðu gegn ofbeldi eins og mikill hluti samfélagsins kýs sjálft almennt að gera þessa dagana?“

Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur fór í leyfi

Áðurnefnd umfjöllun Lífs án ofbeldis um mál Víkings birtist á Facebooksíðu félagsins þann 28. apríl í fyrra. Þar er meðal annars fjallað um aðkomu Hákons Sigursteinssonar, þáverandi framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, að málinu:

„Í gögnum máls kemur það fram að eftir að gölluð skýrsla var gefin út og í kjölfar einnar einhliða fjölmiðlaumfjöllunar um meintan geranda, sem fjöldi þjóðþekktra einstaklinga og embættismanna tók undir, hafi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Hákon Sigursteinsson, sem hafði annars enga aðkomu haft að málinu, hringt sjálfur í meintan geranda og beðið hann afsökunar á vinnubrögðum barnaverndar. Einnig bauð hann honum fjárstuðning í formi sálfræðiviðtala og aðra persónulega aðstoð, sem faðirinn afþakkaði. Þá lofaði Hákon sjálfur að hlutast til um málið og gera allt sem í sínu valdi stæði til að meintur gerandi fengi að vera með barnið, þvert á úrskurð sýslumanns um enga umgengni sem var þá og er enn í gildi.“

Átta dögum eftir að greinin birtist var tilkynnt að Hákon væri farinn í leyfi frá störfum sínum sem framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og hann „ráðinn til að stýra undirbúningi að samþættingu þjónustu við börn og unglinga í samræmi við ný lög um farsæld barna.“ Samkvæmt heimildum DV var það út af aðkomu hans að máli Víkings og umfjöllunar um hana sem hann fór í leyfi á þessum tímapunkti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“